Mynd dagsins‎ > ‎

4. júní 2011

posted Jun 4, 2011, 4:19 AM by Rannveig Garðaflóra

Murur (Potentilla) er nokkuð stór ættkvísl af rósaætt með fjölda fallegra garðplantna, sem flestar hafa þó þann galla að standa frekar stutt í blóma. Þær hafa breytilegan blómgunartíma eftir tegundum frá byrjun júní og fram í ágústlok. Þær fyrstu til að blómstra í byrjun júní eru vormuran og japansmuran sem prýðir mynd dagsins í dag. Hún er lágvaxin með frekar grófu, hvítloðnu laufi og nokkuð stórum blómum, eiginlega andstæða vormurunnar sem er öll mun fíngerðari með smáu, glansandi laufi og mun minni blómum. Báðar eru harðgerðar og fallegar tegundir sem henta jafnt í steinhæðir sem fremst í venjulegum blómabeðum. Tvær murutegundir vaxa villtar á Íslandi, gullmuran og tágamuran. Báðar eru ljómandi fallegar en hvorug góð garðplanta og getur tágamuran flokkast sem illgresi í görðum þar sem hún er mjög skriðul.

Comments