AMARYLLIS

Amaryllis er ræktaður sem pottaplanta hér á landi. Laukarnir eru gróðursettir í pott sem er bara rétt stærri en laukurinn sjálfur (eða laukarnir, ef fleiri en einn) og efsti þriðjungur lauksins er látinn standa upp úr moldinni. Potturinn er svo staðsettur á björtum stað og vökvaður sparlega þar til vöxtur sést. Þegar það fer að sjást í grænt er vökvunin aukin þannig að moldin haldist rök, en ekki blaut. Blómin standa lengur ef hitastigið er ekki haft of hátt. Þegar blómin fölna er blómstöngullinn klipptur, en laufið láta vaxa áfram og vökvað með næringu reglulega. Þegar laufið sölnar er það hreinsað burt og vökvun hætt. Potturinn er þá geymdur þurr, á svölum stað og svo er byrjað að vökva aftur að vori.

Til að fá blóm um jólin eru laukarnir gróðursettir í október (6-8 vikum fyrir áætlaða blómgun), en ekki er æskilegt að þvinga laukana til að blómstra svo snemma nema á ca. 3 ára fresti.