Rannveig

fullDatetime-to-read.short-label

Sáning sumarblóma

post.update-date

Hér eru leiðbeiningar um sáningu sumarblóma fyrir þá sem langar til að prófa. Þetta er sú aðferð sem ég hef notað og hefur reynst mér vel, en þó hef ég breytt og bætt í áranna rás og má finna nýjustu útgáfu af þeirri aðferð sem ég nota í pistlinum um grunnaðferð sáningar. Það er að sjálfsögðu engin ein rétt aðferð, hver og einn finnur út það sem honum hentar best.

Ég nota ekki sáðbakka þar sem þeir taka mikið pláss og eru óþarflega stórir þegar einungis er verið að rækta plöntur til eigin nota. Nema ætlunin sé að fylla garðinn af einni tegund, þá er sáðbakki algjörlega málið. Ef ætlunin er aftur á móti aðeins að rækta nokkrar plöntur af hverri tegund henta dollur undan abt-mjólk frá MS sérlega vel. Reyndar mætti halda að þær hafi verið hannaðar einmitt í þeim tilgangi að notast sem sáðdollur eftir að búið er að borða innihaldið. Lokið heldur moldinni rakri fram að spírun og má svo nota sem undirskál til að vökva í eftir að fræið spírar. Því er um að gera að setja fjölskylduna í að borða abt-mjólk og safna dollum! (Ég tek það fram að ég er ekki á prósentum hjá MS)

Fyrir þá sem sjá ekki fram á að fjölskyldan geti innbyrt nægilegt magn af abt-mjólk, fást sömu box með sama loki hjá Garðaflóru, bæði 6 stk saman með bakka og stök box með loki.

Fyrir þá sem eiga nóg af ílátum undan skyri og sýrðum rjóma, er hægt að kaupa lokin sér, 6 stk í pakka

1. Abt-ílát þvegið og merkt

Ílát þvegin vel og botninn gataður. Síðan er mikilvægt að merkja boxið t.d. með hvítu einangrunar límbandi (þá er hægt að merkja sama box aftur og aftur). Athugið að nota penna með góðu bleki sem þvæst ekki af! Ef svo ólukkulega vill til að það gleymist að gata botninn þarf ekki að örvænta. Með lagni er hægt að gata botninn eftir að búið er að sá í boxið.

2. Mold blönduð

Sáðmoldin beint úr pokanum er of þétt í sér fyrir flestar tegundir og það borgar sig að blanda fínum vikri saman við hana. Hlutfall moldar og vikurs fer eftir því hverju er verið að sá, ef um er að ræða plöntur sem vilja gott frárennsli er notaður meiri vikur. Gott er að mylja líka alla moldarköggla vel niður um leið og vikurinn er blandaður saman við. Það er gott að setja vatnskristalla út í moldina, þá er minni hætta á að hún ofþorni. Mér finnst best að bleyta upp í vatnskristöllunum fyrst og setja svo mæliskeið af blautum vatnskristöllum í botninn á hverju box. En þá má líka blanda þeim beint út í moldina eins og myndin sýnir.

3. Box fyllt af mold

Svo er að setja mold í boxið, það er ágætt að fylla það sléttfullt því moldin á eftir að þjappast. Það er ágætt að týna stærstu moldakögglana úr yfirborðinu og eins stóra vikurmola þannig að yfirborðið sé sæmilega slétt. Síðan er moldinni þjappað létt, þar nýtist lokið vel. Passa bara að þjappa ekki of mikið.

4. Fræi sáð

Fræi er dreift eins jafnt og kostur er yfir moldina. Það er ágætt að nota lítið blað, brotið í tvennt til að sá fræinu. Þá sést betur hversu miklu er sáð og eins er auðveldara að dreifa því jafnt.

Ég nota fínan vikur til að hylja fræin. Ef fræið er mjög smátt er það ekki hulið, heldur dreift yfir vikurinn og svo úðað yfir. Stærra fræ er hulið með vikrinum. Það stendur alltaf á fræpökkunum hvort hylja skuli fræið og þá með hversu þykku lagi. Þumalputtareglan er að hylja frekar minna en of mikið.


 

5. Mold vökvuð

Lokið er notað sem undirskál fyrir boxið og fyllt af vatni. (Setja boxið í lokið áður en það er fyllt af vatni, annars sullast vatn út um allt.) Látið standa þar til vatnið hefur sogast upp í moldina. Þetta tekur nokkrar mínútur.

6. Lok sett á boxið og það geymt við stofuhita fram að spírun.

Ef eitthvað af vatni er eftir í lokinu er því hellt og lokið síðan sett á boxið. Boxinu er svo komið fyrir á björtum og hlýjum stað, ekki í sterku sólarljósi. Norðurgluggi hentar vel. Ef fræið þarf hita yfir 22°C, er betra að staðsetja boxið fjær glugga. Svo er bara að fylgjast með og sjá hvenær fræið spírar. Það tekur yfirleitt frá nokkrum dögum upp í 2 vikur með sumarblómafræ. Stundum spírar fræ á styttri tíma svo mikilvægt er að kíkja reglulega á boxin, helst daglega.

Búið að sá í boxin og beðið eftir að fræið spíri .........

7. Fræ spírar, hvað svo?

Þegar fræið spírar þarf að færa boxin á svalan og bjartan stað. Það borgar sig ekki að taka lokið af strax, heldur losa um það þannig að það lofti aðeins um plönturnar. Þá er minni hætta á að þær ofþorni. Þegar kímblöðin (fyrsta laufblaðaparið) eru komin alveg upp er óhætt að taka lokið af. Þá er hægt að nota það sem undirskál til að vökva í.

Til þess að fræplöntur verði ekki teygðar og veiklulegar þurfa þær næga birtu og ekki of háan lofthita. Það er tiltölulega lítið mál að koma sér upp aðstöðu til ræktunar ef bílskúr er fyrir hendi. Þar er yfirleitt hæfilega svalt. Ef gluggi er til staðar er gott að setja upp hillu við gluggann, en birta frá glugga dugar yfirleitt ekki, það þarf auka ljósgjafa. Flúrlampar henta vel. Hægt er að fá lampa með tveimur perum og spegli, þá er gott að hafa aðra peruna "Cool White" og hina "Warm White".

Ef enginn er bílskúrinn er ekki útilokað að nota glugga inni ef þess er gætt að kynda herbergið ekki of mikið og hægt er að koma fyrir flúrlampa. Ég er með aðstöðu í þvottahúsinu, sem er ekki óska staður, en gerir sitt gagn. Norður eða vestur gluggi hentar best því ungar plöntur eru viðkvæmar fyrir sterku sólskini. Brúðarauga (Lobelia) er dæmi um sumarblóm sem hægt er að rækta í björtum glugga (EKKI suðurglugga) með góðum árangri, jafnvel án auka ljósgjafa.

Aðstaðan mín í þvottahúsinu. Ég hef boxin þarna frá því fræinu er sáð og þangað til ég er búin að dreifplanta því.

8. skref: Dreifplöntun

Nú fara plönturnar að verða plássfrekari. Þegar plönturnar eru komnar með eitt eða tvö pör af laufblöðum (kímblöðin teljast ekki með) er tímabært að dreifplanta þeim í potta. 7 cm pottar eru hæfilegir fyrir flestar tegundir, a.m.k. til að byrja með. Þeir eru til í tveimur dýptum og finnst mér dýpri týpan betri.

9. Plöntur ræktaðar áfram

Ef gróðurhús er til staðar er yfirleitt hægt að flytja plönturnar út í það í apríl. Gott er að geta haldið því frostlausu í vorhretum, hægt er að fá ódýra hitablásara til þess.

Ef gróðurhús er ekki til staðar eru plönturnar hafðar áfram inni fram undir lok maí mánaðar. Þá er hægt að fara að setja bakkana út þegar vel viðrar, en taka svo plönturnar inn aftur yfir nóttina.

Áður en ég var komin með gróðurhús var ég með upphitaðan gróðurreit úti. Þangað út setti ég plönturnar þegar þær voru komnar í potta. Ég notaði lítinn hitablásara til að halda reitnum frostlausum og var með flúrlampa til að plönturnar fengju næga birtu. Hægt er að setja plönturnar út í reit þegar búið er að stilla hitastigið af í reitnum, jafnvel í janúar. Ég stilli hitablásarann þannig að hitinn sé á bilinu 5-20°C. Ég er með hitamæli sem sýnir hæsta og lægsta gildi, svo hægt sé að fylgjast með hitastiginu. Ég læt hitarann yfirleitt ganga í 2-3 daga þangað til ég er búin að ná réttri stillingu þannig að hitastigið sé passlegt, áður en plönturnar fara út. Þegar kemur fram á vorið er auðvelt að herða plönturnar með því að opna reitinn bara þegar vel viðrar.

Reiturinn í frosti og snjó í febrúar.

Ilmskúfar í lok maí 2015, tilbúnir að komast út í beð.

10. Plantað út

Yfirleitt er miðað við að planta sumarblómum út í byrjun júní. Það getur verið freistandi að setja þau út fyrr en það eru mörg dæmi um frost seint í maí og svekkjandi væri að tapa plöntunum í vorhreti eftir alla vinnuna við að ala þær upp. Því borgar sig að bíða fram í júní. Og svo er bara að njóta blómskrúðsins fram á haust.

    10460
    2