Rannveig

fullDatetime-to-read.short-label

Dalíur (Dahlia)

post.update-date

Dalíur eru að margra mati drottningar vorlaukanna. Þar sem er nógu hlýtt eru þær reyndar fjölærar og vaxa bara og dafna án nokkurrar fyrirhafnar, en því miður er raunin allt önnur hér. Þær þurfa forræktun inni frá mars-apríl og svo er þeim plantað út þegar hætta á frosti er liðin hjá í byrjun júní. Þær þurfa besta stað í garðinum, undir suðurvegg í góðu skjóli þar sem sólin skín stærstan hluta dagsins.

Flokkun dalía

Flokkun dalía er nokkuð á reiki og breytilegt hvernig dalíur eru flokkaðar. Óháð því í hvaða dilk þær eru dregnar, þurfa þær allar sömu ræktunarskilyrði.

Dalíur eru flokkaðar í 15 flokka eftir blómgerð skv. National Dahlia Society á Bretlandi (https://www.dahlia-nds.co.uk/about-dahlias/classification/)

Forræktun

Dalíuhnýðin eru sett niður í mars eða byrjun apríl. Stærð potta fer eftir stærð hnýðisins, en 2-5 l pottar ættu að vera hæfilegir. Blanda ætti pottamoldina með fínum vikri til að tryggja gott frárennsli, því hnýðin geta rotnað ef moldin er of blaut. Best er að væta í moldinni þegar vikrinum er blandað saman við þannig að hún sé rök, en alls ekki blaut. Hnýðið er hulið þannig að rótarhálsinn standi aðeins upp úr. Síðan er pottinum komið fyrir á björtum, svölum stað. Ef pottarnir eru settir út í glugga þar sem ofn er undir, þarf að lækka vel niður í ofninum. Það er sérstaklega mikilvægt í upphafi á meðan stilkarnir eru að koma upp. Ræktunarljós eru gagnleg til að koma í veg fyrir að togni ekki of mikið á stilkunum á meðan þeir eru að byrja að vaxa. Ef þeir spíra mikið í upphafi verða þeir veikbyggðir og standa tæplega undir væntanlegum blómum. Þegar tvö blaðpör eru komin upp, er mælt með því að klípa ofan af vaxtarsprotanum til að plantan þétti sig. Það er mjög mikilvægt að þetta sé gert áður en stilkurinn verður of hár, því annars skiptist hann bara í tvennt efst og plantan lítur út eins og hún sé á stultum. Það er líka mikilvægt að vökva mjög hóflega, bara þannig að moldin haldist aðeins rök. Sleppa ætti áburðagjöf fyrstu 4-6 vikurnar, en eftir það er ágætt að vökva með Grænu þrumunni í hvert skipti sem vökvað er. Ef gróðurhús er til staðar ættu plönturnar að fara þangað út í lok apríl - maí. Þá er síður þörf á að herða þær áður en þær fara út í garð, því hitastigið í gróðurhúsinu lækkar á nóttunni. Ef plönturnar eru inni við stofuhita þar til þeim er plantað út þarf að herða þær í 1-2 vikur áður en þeim er plantað út. Þá eru þær settar út yfir hádaginn og teknar inn yfir nóttina. Hitastigið þarf að vera yfir 10°C til að plönturnar fái ekki kuldasjokk, svo það er best að byrja að herða plönturnar á sólardegi og setja þær á skjólgóðan stað þar sem sólin skín á þær. Þegar herðingu er lokið er plöntunum plantað út, annað hvort út í beð, helst undir suðurvegg, eða í blómaker.

Ræktun úti

Dalíur þurfa sólríkan vaxtarstað til að ná að blómstra. Þær þurfa vel framræstan jarðveg, því þær vilja ekki standa í bleytu, en þó þurfa þær mikla vökvun þegar þær eru komnar í fullan vöxt og eru fljótar að hengja lauf þegar moldin er orðin of þurr. Gæta þarf þess að nota ekki of köfnunarefnisríkan áburð, því þá verður blómgun minni og blómstönglar teygðir og veikir. Dalíur henta vel til ræktunar í blómakerjum, sem er þá hægt að staðsetja á skjólgóðum og sólríkum stað.

Vetrargeymsla

Þegar hitastig fer að nálgast frostmark á haustin er tímabært að taka hnýðin inn, ef ætlunin er að rækta þau aftur næsta vor. Létt næturfrost dugar til að plönturnar visni niður, en það er ekki nauðsynlegt að bíða eftir fyrsta frostinu. Það er hægt að taka pottana inn áður en frýs og láta moldina þorna þannig að plönturnar visni niður. Þær eru svo klipptar niður þannig að 5 cm bútur sé eftir af hverjum stilk.
 

 
Það eru tvær leiðir færar til að geyma hnýðin, en þær kalla báðar á svalan, frostlausan geymslustað.
 

  1. Hnýðin eru tekin úr pottunum, moldin þvegin af og hnýðin þurrkuð. Síðan er þeim pakkað í dagblaðapappír, sag eða vikur og geymd í lokuðu íláti við 10-15°C fram á vor. Þá eru skemmdir klipptar burt og hnýðin gróðursett aftur.

  2. Hnýðin látin þorna í pottunum og geymd þannig á svölum stað fram á vor. Moldin á ekki að þorna alveg, en næstum því. Halda þarf rakastiginu mjög lágu til að hnýðin fúni ekki, en þau mega ekki þorna alveg. Í mars eru hnýðin tekin upp úr pottunum, skemmdir klipptar í burtu og gróðursett í nýja mold. Önnur leið er að fjarlægja bara efsta moldarlagið úr pottinum og bæta nýrri mold ofan á. Þá verður hnýðið ekki fyrir hnjaski, en það er alltaf hætta á að bútar brotni af þegar moldin er hreinsuð frá. Þegar hnýðin stækka er hægt að umpotta í stærri pott án þess að hreyfa við öðru en moldinni sem er laus ofan á.

    380
    0