Rannveig

fullDatetime-to-read.short-label

Fræspírun


 
Mikilvægt að vita áður en hafist er handa við sáningu


 
​Fyrsta skrefið, þegar rækta skal plöntur af fræi, er að finna við hvaða aðstæður fræið spírar.

  • Þarf fræið einhverskonar kaldörvun?

  • Þarf að rispa fræið eða leggja í bleyti til að flýta spírun?

  • Hvert er kjörhitastig fyrir spírun?

  • Þarf fræið birtu eða myrkur til að spíra?

  • Á að hylja fræið eða ekki?


 
Spírunarskilyrði


 
Fræ þurfa mismunandi aðstæður til að spíra. Þau eru með innbyggða vörn, einskonar innsigli, til að tryggja að þau spíri á réttum tíma, þegar vaxtarskilyrði eru hagstæð. Hvaða skilyrði þarf til að rjúfa innsigli hverrar tegundar ræðst af loftslagi og vaxtarskilyrðum í náttúrulegu umhverfi tegundarinnar.
 
Tegundir sem t.d. vaxa í kjölfar skógarelda, þurfa hátt hitastig, eld, til að rjúfa innsiglið. Þessar plöntur græða upp sviðna jörð og nýta sólarljósið sem hefur greiðan aðgang þegar trén varpa ekki lengur skugga. Þau geta ekki vaxið þegar aðrar plöntur skyggja á þær, svo hitinn gefur til kynna að nú séu rétt vaxtarskilyrði að skapast. Plönturnar vaxa upp og þroska fræ og þegar aðrar plöntur fara að skyggja á, hverfa þær. Fræin geta svo legið í dvala árum og áratugum saman þar til næsti eldur æðir yfir.
 
​​
 
Upplýsingar um spírunarskilyrði eru aðgengilegar fyrir allar tegundir sem fjallað er um á vefsíðu Garðaflóru og fyrir allt fræ sem er til sölu í vefversluninni.
 

 
Þessar upplýsingar koma oft fram á fræumbúðum frá stórum fræframleiðendum, en á fræpökkum frá minni fræsölum stendur oft bara heiti tegundarinnar. Yfirleitt er hægt að finna þessar upplýsingar með því að slá inn latneskt heiti + "germination" í leitarglugga Google. Oft þurfa tegundir innan sömu ættkvíslar svipuð skilyrði til að spíra, en það er ekki algilt og því best að byrja á að leita að tegundaheitinu.
 
Það er ágætis vinnuregla að skrá niður þær tegundir sem ætlunin er að rækta og finna út spírunarskilyrði fyrir hverja tegund áður en hafist er handa við sáningar. Þá er hægt að áætla hentugan sáningartíma fyrir hverja tegund og sá saman eim tegundum sem þurfa svipuð skilyrði. Það er þægilegt að setja svona skrá upp í Excel, eða í minnisbók, t.d. er Minnisbók Garðaflóru með töflur til að skrá þessar upplýsingar. Mér finnst þægilegast að nota minnisbók þegar ég er að sá þar sem ég er ekki með tölvuna við hendina á meðan og færa svo upplýsingarnar í Excel þegar ég er búin að sá. Þá er auðvelt að fletta upp síðar upplýsingum um hverju var sáð og hvaða aðferð var notuð.
 


 
Fræ meðhöndlun og spírunaraðstæður


 
Fræ sem þarf ekki kuldameðhöndlun til að spíra
 

  • Kjörhitastig fyrir spírun er yfirleitt um 20°C

  • Á við um flestar tegundir sumarblóma og margar fjölærartegundir.

  • Á sjaldan við um trjáfræ, en þó eru dæmi tegundir sem spira við stofuhita, oftast sígrænar tegundir.

  • Flest fræ sem spírar án kuldameðhöndlunar spírar á frekar stuttum tíma, oft fáum vikum og yfirleitt á ekki lengri tíma en 3 mánuðum.


 
Fræ sem þarf kuldameðhöndlun til að spíra
 

  • Tímalengd og samsetning misjöfn eftir tegundum

  • Getur verið kaldörvun eða blanda af heit-og kaldörvun

  • Spírunarhitastig misjafnt eftir tegundum, frá 5-20°C

  • Á við um margar fjölærar tegundir og flestar tegundir trjáa, runna og rósa

  • Ekki ætti að henda fræi sem spírar ekki á fyrsta ári eftir sáningu, því það gæti þurft aðra umferð (eða tvær) af hita/kuldameðhöndlun.

  • Fræ sem þarf einhverskonar kuldameðhöndlun getur verið frá 2-3 mánuðum og allt að 2-3 árum að spíra


 
Dæmi um ólík spírunarskilyrði
 
Stjúpur (Viola x wittrockiana)
 

  • Spíra við 18-25°C á innan við viku


 
Fösturósir (Helleborus)
 

  • Fræ þarf hitameðhöndlun við stofuhita í 6 vikur og síðan er best að láta fræið standa úti fram að spírun.

  • Spíra við 5-10°C

  • Gæti þurft tvær umferðir, svo spírun gæti verið tveimur árum eftir sáningu


 
Hlynir (Acer)
 

  • Flest trjáfræ hefur þykka fræskel svo það flýtir fyrir spírun að leggja fræið í bleyti í volgu vatni í ca. sólarhring fyrir sáningu

  • Fræ af flestum hlyntegundum þarf kaldörvun í 3-4 mánuði, svo það er best að sá því að hausti og geyma úti, eða í kæli, fram á vor.

  • Sumar tegundir þurfa fyrst hitaörvun við stofuhit í 1-2 mánuði, síðan kaldörvun (ísskáp eða úti) í 3-5 mánuði og spíra svo við stofuhita.


 
Þessi dæmi sýna hversu mikilvægt er að þekkja spírunarskilyrði hverrar tegundar.
 

Kaldörvun


 
Það eru tvær aðferðir sem nota má við kaldörvun á fræi
 

 
Ísskápur
 

  • Tryggir stöðugt hitastig

  • Þægilegasta aðferðin fyrir fræ sem þarf tímabil af stöðugum kulda, en spírar við stofuhita

  • Til að spara plás hefur gefist vel að blanda fræi í rakan vikur og geyma í rennilásapoka


 
Geyma úti
 

  • Best að sá að hausti

  • Náttúrulegri aðstæður

  • Sveiflur í hitastigi virka vel fyrir sumar tegundir

  • Þægilegasta aðferðin fyrir fræ sem spírar við lágt hitastig

  • Geyma þarf sáningarbox á skýldum stað þar sem sól skín ekki vatn bunar ekki yfir þau

  • Mikilvægt að athuga hvort fræ hafi spírað þegar hitastig fer yfir frostmark

  • Ef vetur er mildur gæti spírun tekið tvö ár


 
Ef fræ þarf aðeins kaldörvun í nokkrar vikur og spírar svo við stofuhita er þægilegast að kæla fræið í ísskáp. Þá hef ég blandað fræinu í rakan vikur og geymt í rennilásapokum þar sem þeir taka minna pláss í ísskápnum en sáningarboxin. Magn vikurs ætti ekki að vera meira en það sem þarf til að hylja yfirborð sáningarboxins (ca. 2 tsk), nema fræið sé mjög stórt. Þá er hægt að hvolfa beint úr pokanum yfir sáðmoldina þegar tími er til að sá fræinu. Ef fræið er mjög smátt er það ekki hulið með meiri vikri. Ef stærra fræ stendur upp úr vikrinum má ýta því varlega niður þannig að vikurinn nái að hylja það.
 

 

    290
    0