Rannveig

fullDatetime-to-read.short-label

Garðverkin í ágúst

post.update-date

Fjölært blómabeð í byrjun ágúst

Blómabeð

Nú hafa margar fjölærar tegundir lokið blómgun og ef ætlunin er ekki að safna fræjum má klippa burt blómstöngla og snyrta til plöntur sem eru orðnar eitthvað lufsulegar. Það má þó ekki klippa fjölærar plöntur alveg niður, það þarf að skilja eftir laufblaðabrúsk sem heldur áfram að safna forða í ræturnar fram á haust.

Þegar blómgun er lokið og búið að snyrta blómstöngla burt er hægt að flytja til plöntur ef þurfa þykir.

Illgresishreinsun heldur áfram eftir þörfum, en ekki ætti að bera á meiri tilbúinn áburð þetta árið.

Meinvaldar á plöntum

Meindýr sem helst láta á sér kræla á þessum árstíma eru blaðlús, birkiþéla og rifsþéla. Það bætist þó enn í fánu meindýra, því nokkuð er farið að bera á nýjum gestum, lirfum á gullregni og sveipstjörnutegundum, sem flokkast sem svokallaðir greflar, þ.e. lirfurnar sjást ekki, þær lifa inni í laufinu og grafa einskonar göng eftir því sem þær nærast á laufinu innan frá.

Neem-olíublanda virkar vel á blaðlús, en árangur gegn öðrum tegundum meinvalda er óþekktur. Það er þó vel þess virði að prófa. Eitur með snertiverkun virkar ekki á lirfur sem eru faldar inni í laufinu.

Rósir

Nú standa margar rósir í fullum blóma. Þegar blómin byrja að sölna er ágætt að hreinsa burt visin krónublöð til að halda runnunum snyrtilegum og koma í veg fyrir myglu. Margar runnarósir þroska fallegar nýpur sem borgar sig að leyfa að þroskast. Hinsvegar er betra að klippa burt visin blóm á flestum beðrósum, nema ef ætlunin er að reyna að safna fræi. Þá er nóg að skilja einn blómstöngul eftir og klippa aðra burt að næsta brumi.

Trjáklippingar

Snyrting á runnum á þessum tíma ætti að einskorðast við létta snyrtingu ef þörf krefur.

Matjurtagarðurinn

Enn þarf að vökva og hreinsa illgresi eftir þörfum, en nú fer að styttast í að hægt sé að fara að smakka á uppskerunni.

Grasflötin

Ekki ætti að bera meiri tilbúinn áburð á grasflötina þetta árið. Miða má við að síðasti sláttur sumarsins sé í lok ágúst, nema september sé þeim mun hlýrri. Það er betra að grasflötin fari ekki of snöggslegin inn í veturinn.

Það skal tekið fram að þessi upptalning er eingöngu til viðmiðunar

    160
    0