Rannveig

fullDatetime-to-read.short-label

Garðverkin í apríl

post.update-date

Nú ætti loksins að vera vor í lofti og krókusarnir ættu að vera við það að blómstra. Plönturnar eru að byrja að vakna af vetrardvala og að ýmsu að huga í garðinum.

Hreinsun beða

Engar plöntuleifar eru fjarlægðar úr þessu beði. Þær skýla nývexti í síðbúnum frostum og veitir ekki af þegar frostið er mikið. Blómstönglarnir eru klipptir niður í maí, bútaðir og þeim dreift yfir moldina. Allt brotnar niður og bætir jarðveginn.

Ég er þeirrar skoðunar að það eina sem eigi að hreinsa úr beðum sé illgresi. Að hreinsa burt allar plöntuleifar að vori vinnur gegn náttúrulegri hringrás heilbrigðs jarðvegar. Það að bera áburð á beðin gefur plöntunum helstu næringarefni, en áburðurinn bætir ekki jarðveginn. Þvert á móti, þá er álíka mikið líf í í jarðvegi strípuðum af lífrænum efnum eins og í Dauðahafinu.

Ef fólki finnst náttúrulega lúkkið ekki nógu snyrtilegt, þá eru þrjár leiðir til þess að snyrta beðin, sem jafnframt viðhalda heilbrigði jarðvegarins. Einfaldasta leiðin er að hylja plöntuleyfarnar með þunnu lagi af moltu eða safnhaugamold. Önnur leið er að hreinsa allt úr beðunum og dreifa þykkara lagi af moltu eða safnhaugamold yfir beðin í staðinn. Ef jurtaleifarnar eru fjarlægðar úr beðunum ætti að molta þær í safnhaug. Það getur verið erfitt að finna moltu ef fólk er ekki sjálft með safnhaug eða jarðgerðartunnu í garðinum. Þá er þriðji kosturinn að róta laufinu og stönglunum saman við moldina, eða raka saman í litlar hrúgur og grafa niður með jöfnu millibili í beðinu.

Flutningur á plöntum

Besti tíminn til að flytja til plöntur, ef þurfa þykir, er frá þeim tíma sem frost er farið úr jörðu og þar til nývöxtur er kominn af stað. Það þýðir ekki að það sé ekki hægt að flytja plöntur eftir að þær eru byrjaðar að vakna, það er bara öruggara á meðan þær eru í dvala. Það er mikið álag fyrir plöntu að vera stungin upp í fullum vexti. Það tekur tíma fyrir ræturnar að ná nægri snertingu við moldina til að ná upp vatni og á meðan getur vökvatap orðið of mikið úr laufinu. Hluti plöntunnar gæti því visnað og skemmst, þó hún drepist ekki. Ef nauðsynlegt reynist að færa til plöntur um hásumar er best að gera það í rigningu og mikilvægt að vökva mikið í 2-3 daga á eftir.

Trjáklippingar

Apríl er fínn timi til að snyrta til limgerði og runna og jafnvel grisja stærri tré. Það þarf þó að hafa í huga að kalskemmdir geta orðið á viðkvæmari runnum alveg fram í lok apríl, svo það borgar sig að bíða enn um sinn með klippingu á rósum og öðrum runnum sem eru í viðkvæmari kantinum fram í maí. Annars gæti þurft að klippa aftur í maí og það er óþarfa tvíverknaður. Trjátegundirnar sem klippa átti í janúar-febrúar ætti ekki að snyrta á þessum árstíma og alls ekki saga stórar greinar af núna. Bíða ætti með að snyrta birkilimgerði þangað til um miðjan maí.

Eftir miðjan apríl má snyrta tegundir sem eru viðkvæmar fyrir sýkingum s.s. reynitré, ávaxtatré í rósaætt (epli, kirsiber o.s.frv) og gullregn.

Vorsáning

Sumarblóm sem má sá í apríl:

  • Brassica - skrautkál

  • Calendula - morgunfrú

  • Mimulus - fiðrildatrúður

  • Tropaeolum - skjaldflétta

Að auki má enn sá fræi af sumarblómategundum sem sá mátti í mars. Þær blómstra þá bara aðeins síðar.

Fræ af fjölærum tegundum sem spírar við stofuhita má sá núna.

Matjurtir sem forræktaðar eru inni:

  • káltegundir

  • kryddjurtir

Vorlaukar - forræktun

Í byrjun mánaðarins :

  • begonía (Begonia)

  • dalíur (Dahlia)

  • gladíólur (Gladiolus)

  • góðarliljur (Crocosmia)

Eftir miðjan mánuð:

  • anemónur (Anemone)

  • asíusóleyjar (Ranunculus)

  • liljur (Lilium)

    480
    0