Rannveig

fullDatetime-to-read.short-label

Garðverkin í janúar - febrúar

post.update-date

Janúar og febrúar eru ekki mánuðir sem fólk tengir almennt við garðrækt. Úti getur verið frost og snjór, eða endalaus lægðagangur með roki og rigningu, og garðurinn liggur í dvala. Það er þó ekki þar með sagt að það sé algjör verkefnaskortur þessa fyrstu tvo mánuði ársins. Það eru bæði verk sem brýnt er að framkvæma á þessum árstíma og önnur til að stytta biðina til vors.

Vetrarskýling

Það eru helst rósir og viðkvæmir runnar sem þarf að skýla yfir veturinn og svo e.t.v. fjölærar plöntur sem þola illa bleytu yfir veturinn.

Ef verið er að rækta plöntur sem eru mjög tæpar á að geta þrifist við íslenskar aðstæður, þarf að skýla þeim strax í byrjun vetrar í október-nóvember. En í flestum tilvikum er nóg að setja upp vetrarskýli eftir áramót, t.d. fyrir flestar rósir. Það tekur því varla að reyna að rækta rósir utandyra hér ef þær þola ekki frost niður í -20°C í stuttan tíma. Vandinn með íslenska vetur er hvað þeir eru langir og vindasamir. Mín reynsla er sú að mestu skemmdir á rósum og trjágróðri verða í mars-apríl og því er mikilvægt að vetrarskýli utan um rósir séu komin upp fyrir marsbyrjun. Nánar verður fjallað um skýlingu rósa í væntanlegum kafla um rósaræktun.

Trjáklippingar

Það eru ekki margar trjátegundir sem þörf er á að snyrta svo snemma árs, en þær fáu sem þetta á við um er brýnt að snyrta áður en hlýna fer og er þá yfirleitt miðað við að það gerist fyrir lok febrúarmánaðar. Síðasta lagi fyrstu viku mars ef ekki er farið að hlýna um of.

Þær trjátegundir sem þetta á við um eru:

  • Birki

  • Hlynur

  • Elri

Það þarf nú yfirleitt ekki að snyrta tré á hverju ári, en ef það er þörf á snyrtingu er þetta rétti tíminn til að sinna því. Þetta á sérstaklega við ef þörf er á að saga eða klippa burt stórar greinar og mætti þar miða við að ef greinin er það sver að það þarf að taka fram kraftklippurnar eða sögina, þá sé það verk sem þarf að vinna á þessum tíma árs. Ástæðan er sú að þegar fer að hlýna byggist upp mikil vökvaspenna í viðnum hjá þessum tegundum og ef stórar greinar eru sagaðar af getur trénu "blætt" í marga daga á eftir. Þó að trén drepist ekki vegna vökvatapsins, er það óþarfa streituvaldur sem gott er að koma í veg fyrir ef mögulegt er. Það vill svo óheppilega til að veður eru oft mjög óhagstæð til trjáklippinga á þessum árstíma og því getur þurft að sæta lagi milli lægða.

Þessi eiginleiki hlyns og birkis hefur lengi verið nýttur til sírópsframleiðslu og er hlynsírópið þar víðfrægast. Það fer þó einhverjum sögum af því að tilraunir hafi verið gerðar með framleiðslu á birkisírópi hér, en ég hef ekki orðið svo fræg að smakka. Án þess að fara út í smáatriði, þá byggir aðferðin á því að nýta þessa háu vökvaspennu í trjánum á vorin til að tappa trjásafanum af með því að bora gat á stofninn, setja stút í gatið og fötu undir til að safna safanum sem lekur út. Trjásafinn er svo soðinn niður þannig að megnið af vatninu gufi upp og eftir stendur sírópið.

Nánar verður fjallað um klippingu á runnum í trjám í sér kafla sem er væntanlegur með vorinu.

Gefa fuglunum í frosti og snjó

Sér kafli um garðfugla og fóðrun á þeim er væntanlegur, en mig langar til að hvetja fólk til að setja út fuglakorn og annað góðgæti handa þeim í frosti og snjó. Fjöldi þrasta og starra eru orðnir staðfuglar hér á Höfuðborgarsvæðinu a.m.k. og treysta á matargjafir yfir vetrarmánuðina. Það er gaman að fylgjast með þeim og sérstaklega skemmtilegt þegar útlendir gestir kíkja við. Á myndinni er gráþröstur sem er algengur flækingur hér yfir vetrarmánuðina.

Fræsáning

Ekki nauðsyn, en góð leið til að stytta biðina fram á vor. Að rækta plöntur af fræi er líka mjög hagkvæmt. Plöntuuppeldi í janúar og febrúar krefst gróðurlýsingar þar sem ekki er næg birta í boði þó ræktað sé úti í glugga. Allt um ræktun af fræi í kaflanum um plöntuuppeldi.

Sumarblóma tegundir sem hæfilegt er að sá í janúar-byrjun febrúar:

  • Alcea - stokkrós

  • Amaranthus - dreyrahali

  • Antirrhinum - ljónsmunnur

  • Begonia - skáblað/begonía

  • Bellis - fagurfífill

  • Dahlia - dalíur

  • Erysimum - logagyllir

  • Lobelia - brúðarauga

  • Osteospermum - regnboði

  • Pelargonium - pelargóníuur

  • Petunia - tóbakshorn

  • Sutera - snædrífa

  • Verbena - járnurt

  • Viola - fjólur/stjúpur

Fjölæringar, tré og runnar sem ætti að sá í janúar eru tegundir sem þurfa frekar stutta kuldameðhöndlun og spíra svo við stofuhita, t.d.:

  • Aquilegia - vatnsberar

  • Lewisia - fjallablöðkur

  • Primula - lyklar

  • Pulsatilla - geitabjöllur

  • Sempervivum - húslaukur

Sumarblómategundir sem hæfilegt er að sá í febrúar eru t.d.:

  • Cosmos - brúðarstjarna

  • Dianthus - kínadrottning

  • Godetia - meyjablómi

  • Lavatera - aftanroðablóm

  • Matthiola - ilmskúfur

  • Nicotiana - blómatóbak

  • Phlox - sumarljómi

  • Senecio - silfurkambur

  • Tanacetum - glitbrá

Fjölæringar, tré og runnar sem ætti að sá í febrúar eru tegundir sem spíra við stofuhita, t.d.

  • Delphinium - riddarasporar

  • Dianthus - drottningablóm

  • Digitalis - fingurbjargarblóm

  • Campanula - bláklukkur (sem þurfa ekki kuldameðhöndlun)

    410
    0