Rannveig

fullDatetime-to-read.short-label

Garðverkin í júní og júlí

post.update-date

Fjölært blómabeð í byrjun júní

Blómabeð

Ef vel tókst til með hreinsun á blómabeðunum í maí og þau hulin með safnhaugamold, ætti ekki að þurfa að hreinsa þau mikið yfir sumarið. Það þarf þá bara að kippa upp illgresisplöntum sem stinga sér upp úr safnhaugamoldinni. Annars þarf bara að reita illgresið eftir þörfum. Það er hæfilegt að bera á beðin í byrjun mánaðarins, hvort heldur sem er lífrænn áburður s.s. þörungamjöl eða hænsnaskítur eða tilbúinn áburður. Eg mæli að sjálfsögðu frekar með að byggja upp heilbrigðan, lífefnaríkan jarðveg, frekar en að treysta eingöngu á tilbúinn áburð.

Það er gott að huga að stuðningi fyrir hávaxnar plöntur tímanlega, það er betra að vera búinn að því áður en þær leggjast niður eða fjúka um koll.

Meinvaldar

Fiðrildalirfur fara að láta á sér kræla í lok maí - byrjun júní. Það er sárt að horfa upp á þær éta upp laufið á uppáhaldsrunnunum, svo það er eðlilegt að leita leiða til að losna við þær. Það eru til ýmsir valkostir, ef fólk vill nota eitur, er hægt að kaupa permasect í garðyrkjuverslunum. Ég vil þó biðla til fólks að nota það sparlega og eingöngu á tré og runna sem lirfurnar herja á, EKKI úða allan garðinn. Til eru aðrir valkostir sem flokkast ekki sem eitur. Af þeim finnst mér neem-olía virka best. Hún er ekki eins fljót að virka og eitrið, það þarf að úða oftar en einu sinni, en kosturinn er að hún hefur ekki neikvæð áhrif á önnur skordýr sem nærast ekki á laufblöðum. Það er best að úða strax og merki um lirfur sjást og endurtaka á ca. 5-7 daga fresti á meðan merki sjást um lifandi lirfur.

Í júlí fer að bera á blaðlús sem hægt er að skola af með vatni eða úða/vökva með neem olíu blöndu. Eins og með aðra meinvalda ætti að takmarka eiturnotkun eins og hægt er. Það skilar engu að úða á plöntur þar sem engar lýs eru.

Trjáklippingar

Það fer að verða ljóst hvað lifnar við eftir veturinn og hvað ekki, svo nú er óhætt að klippa burt allt kal af viðkvæmum runnum og rósum. Það er hægt að snyrta tré og runna út júlí eftir því sem þurfa þykir.

Í byrjun júlí má snyrta aftur limgerði ef fólk vill halda þeim stífklipptum.

Rósir

Nú er tímabært að fjarlægja skýli af rósunum, snyrta þær og bera á.

Sumarblóm

Nú ætti að vera óhætt að byrja að planta út sumarblómum. Það borgar sig að fylgjast með veðurspá og bíða þar til hitastig fer ekki niður fyrir 5°C. Eins borgar sig að bíða ef spáð er hvassviðri. Það er fátt leiðinlegra en veðurbarin blóm sem nýbúið er að planta út.

Matjurtagarðurinn

Nú er óhætt að gróðursetja kálplöntur og sá tegundum eins og salati, radísum og sykurbaunum. Það er mikilvægt að koma þeim sem fyrst í mold þannig að þau hafi góðan tíma til að vaxa og dafna yfir sumarið. Það er gott að breiða akrýldúk yfir, bæði til að flýta vexti og til að halda kálflugunni frá.

Síðan þarf bara að fylgjast með vextinum og vökva og hreinsa illgresi eftir þörfum.

Grasflötin

Í byrjun júní er rétti tíminn til að bera annan áburðarskammt sumarsins á grasflötina og síðasta áburðarskammt sumarsin í byjun júlí. Síðan þarf að slá reglulega, hversu oft ræðst af því hversu mikið er borið á grasflötina og hvaða grastegundir eru í flötinni. Ef eingöngu er notað þörungamjöl og grastegundirnar í flötinni eru lágvaxnar, getur verið nóg að slá 1-2svar í mánuði, ef graskorn er borið á og grastegundirnar í grasflötinni eru hávaxnar getur þurft að slá 1-2svar í viku. Það borgar sig ekki að slá of snöggt því þá nær mosinn sér betur á strik. Það er því best að hafa slátturvélina í hæstu stillingu. Ef fólk dreymir um snögga golfvallarflöt þarf að sá réttum grastegundum í flötina, bera á graskorn og slá oftar.

Það skal tekið fram að þessi upptalning er eingöngu til viðmiðunar. Ef eitthvað er óklárað sem hefði helst átt að gerast fyrr á árinu, er engin ástæða til að örvænta. Bara halda sínu striki og hugsa: "Kemst þó hægt fari." Það er jafnvel hægt að flytja til sumar plöntur fyrri part júnímánaðar og það sem tekst ekki að flytja núna áður en það er komið í of mikinn vöxt verður hægt að flytja í haust.

Svo er bara að njóta sumarsins í garðinum þegar veður leyfir!

    460
    0