Rannveig

fullDatetime-to-read.short-label

Garðverkin í maí

post.update-date

Flutningur á plöntum

Það er óhætt að flytja til flestar plöntur frameftir maímánuði, þar til þær eru komnar í fullan vöxt. Það er auðvelt að flytja til flestar tegundir fjölærra plantna, en þó eru nokkrar tegundir sem er illa við að hróflað sé við þeim Tyrkjasól er með langa stólparót og ætti helst ekki að hreyfa við henni eftir að hún hefur verið gróðursett. Það eru töluverðar líkur á að plantan myndi ekki lifa flutninginn af, svo það er ráðlegt að vanda vel staðarvalið. Bóndarósir eru ekki eins viðkvæmar fyrir flutningi og drepast yfirleitt ekki þó þær séu fluttar á milli staða, en þær geta gert hlé á blómgun í nokkur ár eftir að þær eru fluttar. Tré og runna er óhætt að flytja á meðan þau eru enn ólaufguð.

Blómabeð

Það er ráðlegt að hreinsa fjölært illgresi úr blómabeðum í apríl-maí á meðan plönturnar eru ekki komnar í fulla vöxt. Það er auðveldara að ná þeim upp á þessum árstíma á meðan ræturnar eru lausari í moldinni. Í maí er óhætt að klippa niður blómstöngla fyrra árs og klippa niður visnaða brúska af skrautgrösum.

Þegar búið er að hreinsa illgresi úr beðunum er gott að dreifa safnhaugamold yfir beðin.

Trjáklippingar

Enn er tími til að snyrta runna og tré og er óhætt að snyrta allar tegundir þegar komið er vel fram í mánuðinn. Þegar rósir og viðkvæmir runnar byrja að bruma er óhætt að snyrta burt kal. Ef kalskemmdir eru miklar getur borgað sig að bíða vel frameftir mánuði, því runnar sem hafa kalið mikið geta verið seinir til að vakna.

Rósir

Skýli úr akrýldúk eða glæru plasti flýtir fyrir vexti eðalrósa. Ef rósunum var skýlt yfir veturinn með akrýldúk, er hann bara hafður áfram út mánuðinn. Ef rósunum var skýlt með striga eða öðru efni sem hleypir ekki ljósi í gegn, virkar vel að hvolfa pokum úr glæru plasti yfir í byrjun maí. Með því að skýla rósunum með þessum hætti má flýta blómgun um allt að mánuð. Hæfilegt er að fjarlægja skýlin um mánaðarmótin maí-júní.

Matjurtagarðurinn

Í byrjun mánaðarins er rétti tíminn til að undirbúa jarðveginn í matjurtagarðinum. Hefð er fyrir því að stinga upp matjurtabeð til að létta moldina og blanda safnhaugamold, húsdýraáburði eða öðrum lífrænum efnum saman við moldina. Nýlegar rannsóknir benda þó til þess að það að stinga upp jarðveginn geti haft neikvæð áhrif á lífríkið í jarðveginum, sem er lagskipt eftir dýpi. Það að stinga upp jarðveginn snýr öllu bókstaflega á hvolf þannig að örverur og smádýr sem lifa í efsta lagi moldarinn eru komnar á of mikið dýpi. Það að losa um moldina með því að stinga gafflinum niður og lyfta aðeins upp er nóg til að lofta um jarðveginn, sem er ekki bara betra fyrir jafnvægið í jarðveginum, heldur bakið líka. Ef þörf er á að bæta moldina með því að blanda sandi eða lífrænum efnum saman við er hægt að hræra því saman við moldina með því að snúa gafflinum fram og til baka.

Um miðjan maí er hæfilegt að sá gulrótum og öðru rótargrænmeti. Það er ágætt að skoða veðurspána og sá þegar von er á rigningu. Ef engin væta er í kortunum þarf að passa að vökva þannig að moldaryfirborðið haldist rakt þar til fræið spírar. Það er gott að hylja beðið með akrýldúk, hann flýtir bæði vexti og heldur skaðvöldum frá.

Í byrjun mánaðarins má setja kartöfluútsæði í forspírun og undir lok mánaðarins þegar hitastig jarðvegs hefur náð ca. 8 er óhætt að setja þær niður. Það gefst vel að hrauka moldinni upp í hryggi og hafa rásir á milli, þá hlýnar moldin fyrr og drenar betur.

Grasflötin

Fyrsta verk vorsins í umhirðu grasflatarinnar er að raka yfir grasflötina til að fjarlægja greinar og annað lauslegt sem ekki er æskilegt að lendi í sláttuvélinni.. Ef mikill mosi er í grasflötinni er svo gott að fara með mosatætara yfir grasflotina. Ef flötin er mjög skellótt eftir tætinguna, er grasfræi sáð í sárin. Það er þó betra að bíða með að sá grasfræinu fram í miðjan mánuð eða síðar ef mjög kalt er í veðri og best er að sá þegar rigning er í kortunum.

Það getur verið gott að gata grasflötina og dreifa sandi eða skjeljasandi svo yfir. Það eykur loftun og bætir dren sem gefur betri grasvöxt. Kalkið í skeljasandinum getur líka hjálpað til við að halda aftur af mosavexti.

Fyrsta áburðarskammti sumarsins ætti að dreifa yfir flötina fyrri hluta mánaðarins. Það er smekksatriði hvaða áburð fólk vill nota, en ég mæli frekar með lífrænum áburðarefnum eins og þörungamjöli til dæmis. Graskorn hleypir miklum vexti í grasið, sem þýðir að það þurfi oftar að slá, fyrir utan þau nækvæðu áhrif sem tilbúinn áburður hefur í lífríkið í jarðveginum.

    1090
    1