Rannveig

fullDatetime-to-read.short-label

Garðverkin í nóvember-desember

Á meðan jörð er ófrosin, er hægt að halda áfram með þau haustverk sem ókláruð eru þegar nóvember gengur í garð. Nú ætti þó að fara að hægjast um og hægt að fara að hugsa til jólanna.

Garðurinn 8. desember2023

Fræsáning

Fræ sem best er að sá að hausti eða snemmvetrar er fræ með stutt geymsluþol og fræ sem þarf langa kaldörvun.

Sumar tegundir fræja hafa mjög stutt geymsluþol og þurfa að komast í mold eins fljótt og mögulegt er eftir að það þroskast. Ef ekki er hægt að sá fræinu strax þarf að geyma það í kæli fram að sáningu. Dæmi um slíkt eru fræ af fösturósum (Helleborus) og víðitegundum (Salix).

Fræ ýmissa tegunda lauftrjáa þurfa langa kaldörvun áður en það spírar og því þarf að sá fræinu eins snemma að hausti og hægt er til að það nái að spíra að vori. Stundum tekur spírunin tvö ár ef kuldaskeiðið er ekki nógu langt fyrsta veturinn. Það er misjafnt milli tegunda hvort stöðugt hitastig eða hitasveiflur virki betur á kaldörvunartímabilinu. Ef þörf er á stöðugum kulda undir 4°C í ákveðinn tíma, er gott að setja fræið í kæliskáp, ef hitasveiflur virka betur er best að láta fræílátin standa utandyra yfir vetrarmánuðina, sérstaklega ef fræið spírar við lágt hitastig.

Nánar um fræsáningu:

Fræspírun

Haustsáning

Vetrarskýling

Það eru helst rósir og viðkvæmir runnar sem þarf að skýla yfir veturinn og svo e.t.v. fjölærar plöntur sem þola illa bleytu yfir veturinn.

Það er ágætt að stinga niður prikum tímanlega áður en jörð frýs, þó að skýlin séu ekki sett upp strax. Rósum og skrautrunnum er best að pakka inn í akrýldúk, hann einangrar betur en strigi.

Lyngrósir þola illa vindnæðing, sérstaklega að vetri til. Ef skjól er af skornum skammti borgar sig að útbúa skýli úr striga. Þar sem þær lyngrósir sem lifa hér eru sígrænar, þurfa þær birtu og því þurfa skýlin umhverfis þær að vera opin að ofan.

Jólaskreytingar

Jólaljósin lýsa upp skammdegið og lífga mikið upp á garðinn. Það er ágætt að nýta milda daga í nóvember, ef einhverjir gefast, til að setja upp ljósin áður en veturinn skellur á af fullum þunga.

Fuglafóðrun

Fjöldi þrasta og starra eru orðnir staðfuglar hér á Höfuðborgarsvæðinu a.m.k. og treysta á matargjafir yfir veturinn. Ég vil því hvetja þá sem geta að setja út fæði handa þeim, sérstaklega í frosti og snjó. Það er gaman að fylgjast með þeim og sérstaklega skemmtilegt þegar útlendir gestir kíkja við.

    50
    0