Rannveig

fullDatetime-to-read.short-label

Haustlaukar - skipulag

Staðarval

Við staðarval á haustlaukum þarf að taka mið af jarðvegsgerð og fjölda sólarstunda. Allar tegundir haustlauka þrífast best í sól, í jarðvegi sem drenar vel.

Flestum tegundum hættir til að veslast upp með tímanum ef jarðvegurinn er of blautur, þó þeir nái mögulega að blómstra fyrsta vorið. Hægt er að bæta frárennsli með því að blanda of þétta mold með grófum sandi eða vikri. Tegundir sem þurfa sérstaklega vel drenaða mold eru t.d. krókusar, perluliljur, smáblómapáskaliljur og villitúlipanar.

Skortur á sólarljósi kemur niður á blómgun hjá mörgum tegundum, þótt sólarleysið drepi þær kannski ekki. Tegundir sem þola sól aðeins part úr degi eru t.d. túlipanar, stórblóma páskaliljur, haustliljur, vetrargosar og stjörnuliljur.

Hávaxnari tegundir s.s. túlipanar, stærri páskaliljur og hávaxnir skrautlaukar þurfa þokkalega gott skjól svo blómstönglarnir brotni ekki.

Gróðursetning

Það eru ýmsar leiðir til að gróðursetja haustlauka þannig að þeir njóti sín vel.

1. Ein sort gróðursett í stórar breiður.

2. Smáar tegundir gróðursettar í grasflatir

3. Gróðursett í búntum inn á milli fjölæringa í blómabeðum

4. Gróðursett í potta

Persónulega finnst mér það ekki koma vel út að gróðursetja í einfaldar raðir með jafnt bil á milli laukanna eins og gefið er upp á pakkningunum. Að mínu mati lítur það mjög ónáttúrulega út og ef blómin eru stök og bilið á milli of langt verður heildarmyndin heldur litlaus. Ef fólk dreymir um lauka í beinni línu, þarf röðin að vera a.m.k. þreföld þannig að laukarnir skarist á milli raða og bilið á milli má ekki vera of mikið til þess að það náist nægileg þéttni til að blómin njóti sín.

Ein sort gróðursett í stórar breiður

Það er mjög tilkomumikið að sjá stóra fleti af sömu sort, sem mynda jafnvel mynstur. Þessi aðferð er helst notuð í almenningsgörðum og oftast eru túlipanar notaðir, þó aðrar tegundir komi líka til greina. Einn frægasti túlipanagarður í heimi er Keukenhof í Hollandi og er myndin að ofan þaðan.

Þessi aðferð hentar ekki vel í heimilisgarða því hún tekur mikið pláss sem er þá ekki mjög spennandi restina af sumrinu þegar laukarnir hafa lokið blómgun. Það mætti mögulega planta sumarblómum í beðin til að taka við af laukunum, en það kostar talsverða fyrirhöfn og peninga að kaupa bæði lauka og sumarblóm og planta árlega til að fylla slík beð.

Gróðursett í grasflatir

Það getur verið virkilega fallegt að planta smágerðum laukplöntum s.s. krókusum, smáblóma páskaliljum, vorblómstrandi írisum, snæstjörnum og stjörnuliljum, í grasflatir. Þannig skapast einskonar blómaengi á meðan grasið er að hefja vöxt. Til að útlitið verði náttúrulegt er best að blanda öllum tegundum saman, kasta þeim upp og gróðursetja þar sem laukarnir lenda. Þar sem allar þessar tegundir eru fjölærar má ekki slá grasið fyrr en lauf laukanna hefur fölnað svo laukarnir nái að safna forða fyrir blómgun næsta vors. Það er því ráðlegt að gróðursetja laukana annaðhvort í jaðra grasflatarinnar eða skilja eftir gönguleiðir þar sem laukum er ekki plantað og því hægt er að slá þegar grasvöxtur er kominn í gang.

Önnur leið er að gefa sköpunargáfunni lausan tauminn og planta laukunum í mynstur með gönguleiðum á milli. Þannig væri hægt að blanda saman leið 1 og 2 gróðursetja litafleti í mynstur sem myndi svo hverfa í grasflötina þegar lítður á sumarið, en birtast svo aftur að vori.

Gróðursett á milli fjölæringa

Sú leið sem ég hef mest notað er að nýta lausa plássið á milli plantna í fjölæringabeði og gróðursetja haustlaukana þar. Þeir fylla upp í bilin á meðan fjölæru plönturnar eru að komast af stað og hverfa svo undir þær þegar laufið er farið að visna. Þessa aðferð má nota fyrir allar tegundir haustlauka. Ég set laukana frekar þétt niður, í hring, þannig að þeir myndi þéttan brúsk.

Gróðursett í potta

Það er hægt að rækta allar tegundir af haustlaukum í pottum. Hentug stærð er 2-5 lítrar eftir tegund.

  • 2 lítrar - smærri laukar eins og krókusar og stjörnuliljur.

  • 3 lítrar - hæfileg stærð fyrir 5 túlipana lauka og minni páskaliljulauka

  • 5 lítrar - hæfileg stærð fyrir 5 stóra páskaliljulauka eða stóra Allium lauka

Pottarnir eru svo geymdir úti á skýldum stað pakkaðir inn í þykkan akrýldúk. Það er fínt að snjói yfir pottana, en ekki gott að rigni of mikið ofan í þá. Það er mikilvægt að fjarlægja dúkinn strax og lauf fara að kíkja upp úr pottunum svo plönturnar fari ekki of fljótt af stað.

Mér finnst þessi aðferð hafa reynst sérstaklega vel fyrir túlipana, því þeir blómstra oftar en ekki bara vel fyrsta árið eftir gróðursetningu. Ég hef sett pottana niður í blómker og hef líka komið þeim fyrir í blómabeðum og tekið þá svo upp þegar blómgun er lokið. Þá eru engar lélegar túlipanaleyfar að koma upp ár eftir ár sem taka pláss í beðinu.

    50
    0