Rannveig

fullDatetime-to-read.short-label

Haustverkin í garðinum: september-október

post.update-date

Fjölært blómabeð um miðjan september

Haustlaukar

Haustlaukar eru settir niður að hausti, en blómstra flestir að vori, frá mánaðarmótum mars-apríl og fram í júní.

Þeir lífga ekki bara upp á garðinn fyrst á vorin með sínum fagurlituðu blómum, heldur eru blómin líka mikilvæg fæða fyrir hunangsflugur fyrst á vorin. Þá má gróðursetja frameftir hausti á meðan jörð er ófrosin.

Fræsöfnun

Aðal fræsöfnunartíminn er í september, þó plöntur sem blómstra snemmsumars þroski fræ fyrr. Þegar fræbelgirnir eru orðnir brúnir og byrja að opnast er tímabært að tína þá. Best er að setja þá í bréfpoka og láta þá þorna í þeim, þá er engin hætta á að þeir mygli. Þegar belgirnir eru þurrir, er auðvelt að hrista fræið varlega úr og tína þá svo í burtu.

Blómabeð

Frágangur í blómabeðum ætti að einskorðast við að klippa niður hávaxnar plöntur þannig að 30-40 cm stilkar standi eftir. Það er um að gera að hreinsa burt illgresi, ef þörf er á, en allt lauf ætti að liggja óhreyft fram á vor. Blómstilkarnir sem eftir standa hjálpa til við að halda laufinu í beðinu, ef þeir væru klipptir alveg niður fýkur laufið frekar í burtu.

Rósir

Margar rósir halda áfram að blómstra fram í frost. Í október-nóvember er ágætt að fara að huga að vetrarskýlingu fyrir viðkvæmar rósir.

Margar runnarósir þroska rósanýpur, sem ættu að vera þroskaðar fyrir lok september mánaðar. Þær eru mikið skraut og geta hangið á runnunum frameftir vetri og eru góð fæða fyrir fuglana. Þær má einnig nota í sultur og aðra matargerð.

Matjurtagarðurinn

Nú er aðal uppskerutíminn runninn upp og tímabært að taka upp kartöflur, gulrætur og kál og koma uppskerunni í geymslu.

Nú er líka tíminn til að setja niður hvítlauk.

Grasflötin

Síðasti sláttur ætti að fara fram í byrjun september ef þörf er á. Það borgar sig ekki að slá of seint eða of snöggt, það er betra að grasflötin sé aðeins loðin fyrir veturinn. Það heldur aftur af mosavexti og hlífir grasrótinni.

Gróðursetning og flutningur á plöntum

Haustið er fínn tími til gróðursetningar á runnum og fjölærum plöntum. Það er líka fínn tími til að færa til plöntur ef þurfa þykir. Það er best að gera í október þegar lauf er fallið af runnum og fjölærar plöntur hafa visnað niður, en það er vel hægt að komast upp með að byrja að flytja til plöntur í september ef þurfa þykir.

Fræsáning

Fræ sem best er að sá að hausti eða snemmvetrar er fræ með stutt geymsluþol og fræ sem þarf langa kaldörvun.

Sumar tegundir fræja hafa mjög stutt geymsluþol og þurfa að komast í mold eins fljótt og mögulegt er eftir að það þroskast. Ef ekki er hægt að sá fræinu strax þarf að geyma það í kæli fram að sáningu. Dæmi um slíkt eru fræ af fösturósum (Helleborus) og víðitegundum (Salix).

Fræ ýmissa tegunda lauftrjáa þurfa langa kaldörvun áður en það spírar og því þarf að sá fræinu eins snemma að hausti og hægt er til að það nái að spíra að vori. Stundum tekur spírunin tvö ár ef kuldaskeiðið er ekki nógu langt fyrsta veturinn. Það er misjafnt milli tegunda hvort stöðugt hitastig eða hitasveiflur virki betur á kaldörvunartímabilinu. Ef þörf er á stöðugum kulda undir 4°C í ákveðinn tíma, er gott að setja fræið í kæliskáp, ef hitasveiflur virka betur er best að láta fræílátin standa utandyra yfir vetrarmánuðina, sérstaklega ef fræið spírar við lágt hitastig.

Nánar um fræsáningu:

Fræspírun

Haustsáning

Vetrargeymsla á plöntum

Það eru nokkrar leiðir færar til að geyma plöntur í uppeldi sem eru ekki orðnar nógu stórar til að planta út að hausti. Ef eingöngu er um nokkra potta að ræða, er hægt að grafa þá niður og geyma þannig yfir veturinn. Það er hægt að nýta matjurtabeð til að geyma plöntur í yfir veturinn og ekki verra að breiða akrýldúk yfir.

Það er auðvelt að útbúa geymslureiti úr brettaköntum og það er líka hægt að smíða þá úr mótatimbri. Það er annaðhvort hægt að raða pottum í reitina eða fylla þá með mold og gróðursetja í þá. Akrýldúkur skýlir vel og plönturnar komast þá fyrr að stað að vori.

    250
    0