Rannveig

fullDatetime-to-read.short-label

Krókusar (Crocus)

Krókusar eru e.t.v. þekktastir af þeim laukplöntum sem blómstra fyrst á vorin. Þeir eru örlítið á eftir vetrargosunum og vorírisunum, þó smáblómakrókusarnir séu ekki langt á eftir.

Allir krókusar eiga það sameiginlegt að þurfa vel framræstan jarðveg og sólríkan vaxtarstað. Það er forsenda fyrir því að blómin opnist að sólin skíni á þau, svo það hversu vel krókusarnir ná að blómstra er algjörlega undir veðrinu komið. Það koma því vor þar sem krókusarnir er stórkostlega flottir og önnur vor þar sem þeir eru hálf vesældarlegir með veðurbarin blóm. Það er þó algjörlega þess virði að gróðursetja þá til að njóta þeirra þau vor þar sem sólin skín á réttum tíma.

Gullkrókus 'Yellow Mamouth' (Crocus flavus)

Smáblómakrókusarnir blómstra 2-3 vikum á undan þeim stórblóma, oft í lok mars þegar veður leyfir. Flestar sortir eru kenndar við þrjár tegundir, tryggðarkrókus (Crocus chrysanthus), grikkjakrókus (Crocus sieberi) og snækrókus (Crocus tommasinianus). Af þessum er tryggðarkrókus lang algengastur, með mikinn fjölda yrkja í öllum litaafbrigðum sem krókusaættkvíslin hefur upp á að bjóða.

Tegundirnar sem teljast til stórblómakrókus eru tvær, vorkrókus (Crocus vernus) og gullkrókus (Crocus flavus). Blómin eru töluvert stærri en á smáblómakróksunum og laufið grófgerðara. Þeir blómstra í apríl.

Sortir vorkrókuss eru í hvítum, lillabláum og fjólubláum litbrigðum, en sortir gullkrókuss eru allar mjög keimlíkar, í sama dökkgula litnum.

    70
    0