Rannveig

datetime-to-read.short-label

Maríusóley (Anemone) - gróðursetning

Maríusnotrur (Anemone) er hnýðisplöntur sem er forræktaðar að vori áður en þær eru gróðursettar út í beð. Það er best að forrækta þær í við 10-15°C, við stofuhita geta þær orðið veiklulegar.

Aðferðin sem er sýnd hér miðar við að byrja á því að láta hnýðin forspíra í rökum vikri, áður en þau eru gróðursett. Þannig sést bæði hvaða hnýði eru í lagi og hvernig þau eigi að snúa.

Fyrsta skref: Hnýði lögð í bleyti og svo sett í forspírun

Hnýðin eru lögð í bleyti í volgt vatn í 4-6 klst. Þeim er síðan dreift í bakka með götuðum botni. Best er að nota hreinan vikur, þá er minnst hætta á að hnýðin rotni, en á móti kemur að það þarf að passa betur upp á að vikurinn þorni ekki. Vikurinn þarf að vera fíngerður og til að hann klessist ekki saman er gott að skola aðeins rykið úr honum. Bakkinn er svo geymdur á svölum stað og passað að vikurinn haldist rakur, en alls ekki of blautur, þar til hnýðin byrja að spíra.

Annað skref: Hnýðin gróðursett

Það má búast við því að hnýðin byrji að spíra eftir 1-2 vikur, það ræðst af hitastiginu sem þau eru í á meðan á forspírun stendur. Það þarf að handleika hnýðin varlega eftir að þau eru byrjuð að spíra til að skemma ekki ræturnar. Þau eru gróðursett í hæfilega stóra potta í vikurblandaða mold sem er haldið rakri en ekki of blautri, því hnýðin geta enn rotnað ef moldin er of blaut.

Það má láta pottana standa úti á meðan er frostlaust, en þá þarf að taka þá inn ef það kemur frost. Svalur bílskúr getur líka hentað ef birta er næg. Ef pottarnir eru hafðir í gróðurhúsi þarf að passa upp á loftun þegar sólin skín, svo hitastigið verði ekki of hátt. Það sem hentar einna best er gróðurreitur sem haldið er frostlausum með litlum hitablásara.

Hvað snýr upp?

Maríusnotrur vaxa best í frjóum jarðvegi sem drenar vel í sól a.m.k. hálfan daginn.

Maríusnotrur verða almennt ekki fjölærar utandyra hér á landi, en það er hægt að geyma hnýðin á frostlausum stað yfir vetrarmánuðina. Ég hef geymt hnýðin í pottum í frostlausu gróðurhúsi yfir veturinn og þau hafa þá vaknað til lífsins þegar hlýna fer að vori.

    70
    0