Rannveig

fullDatetime-to-read.short-label

Páskaliljur (Narcissus)

Páskaliljur blómstra sjaldan utandyra um páskana hér á landi, en gular páskaliljur, afskornar eða í pottum þykja af mörgum ómissandi fyrir páskana. Fjölbreytileikinn í blómgerð og lit er þó mun meiri í þeim sortum sem ræktaðar eru í görðum og takmarkast alls ekki við páskagula litinn. Þær eru flestar fjölærar hér og þrífast best í sól í vel framræstum jarðvegi. Þær geta þó þolað nokkurn skugga.

Flokkun páskalilja

Páskaliljur hafa mjög einkennandi blóm, með fimm krónublöðum sem umkringja hjákrónu sem getur verið samlit eða í öðrum lit en krónublöðin. Krónublöðin eru oftast hvít eða gul, hjákrónurnar geta verið hvítar, gular, laxableikar eða appelsínugular. Þeim er skipt í þrettán flokka eftir blómstærð og stærð og lögun hjákrónunnar.

Efri röð: t.v. 'Pistachio' (trumpet); t.h. 'Pink Charm' (large-cup)

Neðri röð frá vinstri: 1. 'Altruist' (small-cup), 2. 'Tahiti' (fyllt), 3. 'Taurus' (split corona), 4. 'Actea' (poeticus)

Efri röð frá vinstri: 1. 'Jetfire' (Cyclamineus), 'Thalia' (Triandrus)

Neðri röð frá vinstri: 1. 'White Petticoat' (Bulbocodium), 'Golden Echo' (Jonquilla), 'Tripartite' (Tazetta)

Stórblóma páskaliljur

Stórblóma páskaliljur eru flestar fjölærar hér og blómstra árlega við góð skilyrði. Ef jarðvegur er of þéttur eða sól af skornum skammti getur verið að sumar sortir blómstri sjaldnar. Þær blómstra í maí, sortir með lúðurlaga og bollalaga hjákrónur snemma í maí, sortir með skipta hjákrónu og fyllt blóm síðar í maí og hvítasunnuliljusortir í lok maí - júní.

1. Lúðurlaga hjákróna (Trumpet)

Klassísku páskaliljurnar, oftast gular eða gular og hvítar. Þær eru með fyrstu stórblóma páskaliljunum til að blómstra.

2. Víð bollalaga hjákróna (large-cup)

Hjákrónan hjá sortum í þessum flokk er meira en 1/3 af lengd krónublaðanna og oft mjög opin. Allar mögulegar litasamsetningar koma fyrir í þessum flokki. Þær blómstra margar álíka snemma og flokkur 1.

3. Smá bollalaga hjákróna (small-cup)

Blómin á sortum í þessum flokki eru með stutta hjákrónu sem er styttri en 1/3 af lengd krónublaðanna. Þær blómstra heldur seinna en flokkar 1 og 2. Allar mögulegar litasamsetningar koma fyrir í þessum flokki.

4. Fylltar (Double)

Sortir með fyllt blóm tilheyra þessum flokki. Þær blómstra um og eftir miðjan maí. Allar mögulegar litasamsetningar koma fyrir í þessum flokki.

11. Skipt hjákróna (Split corona)

Í þessum flokki er hjákrónan ekki heil, heldur skipt í fimm flipa sem geta verið nánast jafn langir og krónublöðin. Þær blómstra um svipað leiti og sortir með fyllt blóm.

9. Hvítasunnulilju-blendingar (Poeticus)

Hvítasunnuliljublendingar eru með mjög stutta og víða hjákrónu. Þeir eru með síðustu páskaliljusortunum til að blómstra um mánaðarmótin maí-júní.

Smáblóma páskaliljur

Smáblóma páskaliljurnar eru með smærri blóm og styttri blómstöngla en þær stórblóma, svo þær eru sjaldan hærri en 30 cm. Fimm flokkar þeirra eru blendingar kenndir við villtar tegundir og sá sjötti er samtíningur af sortum sem falla ekki í hina fimm flokkana og sá sjöundi eru villtar tegundir og afbrigði af þeim.

6. Febrúarliljur (Cyclamineus)

Febrúarliljurnar (Narcissus cyclamineus blendingar) eru fyrstu páskaliljurnar til að blómstra á vorin, oft um mánaðarmótin apríl - maí. Blóm þeirra eru með misjafnlega mikið aftursveigð krónublöð. Sortin 'Tête-à-Tête' er sú sem seld er sem pottaplanta fyrir páskana. Eftir að blómgun lýkur og laufið hefur fölnað, má gróðursetja laukana út í garð.

7. Jónsmessuliljur (Jonquilla)

Jónsmessuliljurnar (Narcissus jonquilla blendingar) blómstra litlu síðar en febrúarliljurnar, um svipað leiti of fyrstu stórblóma sortirnar. Þær eru misduglegar hér, 'Golden Echo' er sort sem hefur þrifist mjög vel, en margar aðrar hafa verið skammlífar hér.

5. Pálmasunnuliljur (Triandrus)

Pálmasunnuliljurnar (Narcissus triandrus blendingar) blómstra síðari hluta maí og fram í júní. Af þeim sortum sem ég hef prófað hefur 'Thalia' reynst best, langlíf og blómsæl með sín hreinhvítu blóm.

8. Tazetta

​Tazetta-flokkurinn hefur ekki gefist vel hér. Ein sort,'Tripartite', lifði örfá ár, en flestar hafa bara blómstrað einu sinni.

10. Bulbocodium

Bulbocodium-flokkurinn er viðkvæmastur hér og þarf að rækta þær sortir í pottum í gróðurhúsi eða reit.

12. Aðrar sortir

Fáar sortir hafa verið ræktaðar hér úr blandaða flokknum, en sortin 'Rip van Winkle', með gulum, fylltum blómum, þrífst ágætlega.

13. Villtar tegundir

Það eru mjög fáar, ef einhverjar, villtar tegundir af páskaliljum í ræktun hér.

    100
    0