Rannveig

fullDatetime-to-read.short-label

Skipulag í garðinum - fyrstu skref

post.update-date

Þegar fólk eignast húsnæði með garði, hvort sem um er að ræða nýbyggingu eða eldra húsnæði, þá er eðlilegt að fólk velti fyrir sér hvað skuli gera við garðinn.

Það er mikilvægt að ana ekki út í neinar stórtækar breytingar of hratt þegar fólk eignast nýjan garð. Helst er mælt með því að bíða með framkvæmdir fyrsta árið og nota tímann til að fylgjast með aðstæðum í garðinum og velta fyrir sér notkunarmöguleikum.

Helstu spurningar sem þarf að svara eru:

  1. Hvar skín sólin?

  2. Hvaða staðir eru skjólsælir?

  3. Eru erfiðir vindstrengir einhversstaðar og þá hvar?

  4. Hvernig er jarðvegurinn? Þarf að bæta hann á einhvern hátt?

  5. Hvernig á að nota garðinn?

  6. Er þörf á leiksvæðum? Grasflöt?

  7. Hver er hentugasta staðsetning fyrir dvalarsvæði?

  8. Hvernig er aðkomusvæðið - þarf að lagfæra eða breyta því eitthvað?

  9. Hvernig er ástandið á gróðri sem er fyrir í garðinum?

  10. Er mikið um fjölært illgresi og hvernig er þá best að losna við það?

Aðstæðurnar í garðinum

Það fyrsta sem þarf að skoða eru aðstæðurnar í garðinum. Hvernig hann snýr við sól, hversu mikil skuggamyndun er frá nærliggjandi húsum og trjám, hvar er skjól og hvar eru erfiðir vindstrengir. Ef dvalarsvæði er fyrir hendi, pallur eða stétt, hvernig eru aðstæður þar? Hvað skín sól í margar klst. og er skjólið gott? Er þörf á að gera einhverjar breytingar?

Það gæti verið þörf á fleiri en einu dvalarsvæði eftir því hvernig húsið snýr móti sólu og hversu miklum skugga nærliggjandi hús og tré varpa á garðinn. Það væri hægt að útbúa smá svæði með borði og stólum til að njóta sólarinnar fyrri hluta dags, en yfirleitt er það síðdegissólin sem skiptir mestu máli. Það er tíminn sem flestir hafa til að njóta í garðinum. Sá hluti garðsins sem fær sól seinni parts dags og fram á kvöld er sá hluti sem ætti að gera að aðaldvalarsvæði, með borði og stólum og jafnvel heitum potti. Þar þarf þá að huga að skjólmyndun ef vindstrengir eru til staðar og eins, ef hægt er, takmarka innsýn frá götu eða öðrum görðum eins og hægt er án þess að skyggja um of á sólina.

Næst þarf að huga að því hvernig jarðvegurinn er. Drenar hann vel, eða eru blettir þar sem vatn safnast saman? Er þörf á að bæta lífrænum efnum í jarðveginn til að bæta jarðvegsbyggingu? Ef jarðvegurinn er mjög þéttur og leirkenndur þarf t.d. að blanda í hann sandi eða vikri og miklu af moltuðum jurtaleyfum. Ef hann er mjög sendinn, þarf að blanda moltuðum jurtaleyfum saman við. Ef það eru blautir blettir í garðinum þar sem vatn safnast saman er tvennt hægt að gera í stöðunni. Planta þar plöntum sem þrífast vel í blautum jarðvegi - jafnvel útbúa litla tjörn. Eða, bæta drenið með því að leiða vatnið í burtu, t.d. með drenröri og blanda jarðveginn með grófum sandi eða vikri.

Hvernig á að nota garðinn?

Þegar búið er að kortleggja aðstæður í garðinum er næsta skref að ákveða hvernig garðurinn eigi að nýtast. Ef börn eru á heimilinu þurfa þau sinn stað í garðinum. Leiksvæði geta verið ýmiskonar og þar má gefa ímyndunaraflinu lausan tauminn. Þar má koma upp rólu og sandkassa t.d., litlu garðhúsi og svo grasflöt til leikja.

Ef draumurinn er að rækta eigin grænmeti, þarf að finna hentuga staðsetningu fyrir matjurtagarð þar sem sólin skín og skjól er gott. Það gæti þurft að koma upp skjóli fyrir norðanáttum ef garðurinn er opinn fyrir þeim. Því meira sem skjólið er og því lengur sem sólin skín, því betri verður uppskeran. Svo þarf að skoða jarðvegsgerðina sérstaklega vel fyrir matjurtagarða og bæta eftir því sem þurfa þykir. Gulrætur t.d. vaxa best í sendnum jarðvegi, svo ef ætlunin er að rækta þær, gæti það verið vel þess virði að bæta vel af sandi í gulrótarbeðið. Skiptiræktun er góð til að koma í veg fyrir jarðvegsþreytu og vert að skoða möguleika á slíku þegar verið er að skipuleggja garðinn í upphafi.

Hönnun á dvalarsvæðum fer eftir því hvernig fólk vill nýta tímann í garðinum. Það getur verið allt frá kósí kaffihorni, sólbaðsaðstöðu, heitum potti og yfir í stóran pall með útieldhúsi og stóru borði fyrir garðveislur. Hvar sem þörfin liggur þá má ekki gleyma plöntunum. Plöntur ættu að mynda umgjörðina til að mýkja hart yfirborð palla eða stétta, hvort sem er í upphækkuðum beðum, blómakerjum eða gróðurbeðum umhverfis palla og stéttar.

Það er engin regla að grasflöt eigi erindi í alla garða. Það þarf að vera tilgangur með grasflötinni. Grasflatir eru frábær leiksvæði, og stærðin ræðst þá af því hvað fólk vill geta notað hana í. Það þjónar engum tilgangi að vera með grasflöt, bara til að vera með grasflöt. Ef grasflötin er óslegið blómaengi, þjónar hún tilgangi fyrir lífríkið, en slegin grasflöt sem fær reglulega skammta af tilbúnum áburði yfir sumarið og mögulega mosaeyði og illgresiseyði á vorin er lítið annað en umhverfisslys.

Grónir garðar

Þegar tekið er við grónum garði þarf að skoða ástand gróðursins sem fyrir er og meta hverju skuli halda, hvað þarf að grisja og hvað þarf að fjarlægja.Vanda þarf sérstaklega til verka ef um gömul tré eða runna er að ræða og gæta þess að fella ekki ómetanlegar gersemar. Það getur verið vel þess virði að fá sérfræðiaðstoð áður en afdrifaríkar ákvarðanir eru teknar.

Fjölærar plöntur er best að láta óhreifðar fyrsta sumarið og passa að fara ekki hamförum í beðahreinsun áður en ljóst er hvað er þar að finna, annað en illgresi. Ef fjölært illgresi hefur náð mikilli útbreiðslu, gæti þurft tíma og vinnu til að fjarlægja það. Ég mun aldrei mæla með notkun á illgresiseyði, fólk verður að gera það upp við sig hvort það vilji stunda slíkan eiturefnahernað. Það eru aðrar, umhverfisvænar, leiðir færar. Áður en ráðist er í allsherjarútrýmingu, þarf að ákveða hvað á að koma í staðinn. Ber mold helst ekki ber lengi, jafnvel ekki eftir notkun illgresiseyðis. Strax og aðrar plöntur geta vaxið á svæðinu, vex illgresið þar líka. Auðveld leið til að kæfa fjölært illgresi er að hylja svæðið með svörtu plasti. Það getur tekið nokkra mánuði, en kostar ekki mikla vinnu. Ef svæðið er t.d. hulið síðsumars ætti mest að vera horfið að vori. og tiltölulega auðvelt að hreinsa leyfarnar.

    1750
    0