Rannveig

fullDatetime-to-read.short-label

Túlipanar (Tulipa)

post.update-date

Túlipanar eru vinsælasti flokkur haustlauka á heimsvísu og enginn annar flokkur kemst í hálfkvisti við þá hvað varðar litaúrval og fjölda sorta. Eini liturinn sem finnst ekki í túlipanaættkvíslinni er hrein blár. Flestir túlipanar blómstra bara vel fyrsta vorið eftir gróðursetningu. Það eru nokkrar undantekningar á því, sumar sortir eru fjölærar og geta blómstrað árum saman og aðrar eiga það til að blómstra aftur 1-2 árum eftir fyrstu blómgun.

Túlipanaflokkar

Túlipanasortum er skipt í 15 flokka eftir blómgunartíma og blómgerð. Þeir blómstra í þeirri röð sem flokkarnir eru listaðir upp, en blómgunartíminn skarast þó töluvert.

  • Villitúlipanar

  • Kaupmannatúlipanar (Kaufmanniana)

  • Eldtúlipanar (Fosteriana)

  • Dílatúlipanar (Greigii)

  • Einfaldir snemmblómstrandi túlipanar (Single Early)

  • Fylltir snemmblómstrandi túlipanar (Double Early)

  • Tromptúlipanar (Triumph)

  • Darwin-túlipanar (Darwin hybrids)

  • Einfaldir síðblómstrandi túlipanar (Single Late)

  • Liljublóma túlipanar (Lily-flowered)

  • Kögurtúlipanar, einfaldir og fylltir (Fringed)

  • Grænblóma túlipanar (Viridiflora)

  • Rembrandt túlipanar (Rembrandt)

  • Páfagaukstúlipanar (Parrot)

  • Fylltir síðblómstrandi túlipanar (Double Late)

Fyrstir til að blómstra eru ýmsar tegundir villitúlipana og sortir kenndar við villtar tegundir, eins og dílatúlipanar og kaupmannatúlipanar. Þessar tegundir blómstra frá mánaðarmótum apríl - maí og frameftir maímánuði.

Næst blómstra snemmblómstrandi túlipanar, bæði einfaldir og fylltir, síðan tromptúlipanar og Darwin-blendingar upp úr miðjum maí

Síðblómstrandi túlipanar blómstra síðari hluta maí og þeir síðustu í byrjun júní.

Dæmi um fjölærar tegundir og sortir

Langflestar túlipanarsortir blómstra bara vel fyrsta vorið eftir gróðursetningu. Það eru þó örfáar tegundir og sortir sem eru fjölærar.

Af villitúlipönum eru sveiptúlipani (Tulipa tarda) og dvergtúlipani (Tulipa urumiensis) harðgerðastir. Þeir geta lifað áratugum saman og blómstra árvisst í byrjun maí.

Sveiptúlipani (Tulipa tarda)

Af garðasortum eru það helst sortir af flokki Darwin-túlipana sem geta verið fjölærar. Þar eru þekktastir Apeldoorn-blendingarnir, 'Apeldoorn' (rauður) og 'Golden Apeldoorn' (gulur). Nokkrar aðrar sortir í þessum flokki hafa reynst fjölærar, en þó ekki allar sortir sem teljast til Darwin-túlipana. Af öðrum sortum en Apeldoorn-seríunni eru 'Daydream' og 'American Dream' goðar sortir sem blómstra árvisst, þó fjöldi blóma geti verið misjafn milli ára. Þar skipta góð skilyrði höfuðmáli til að fá góða blómgun, sólríkur vaxtarstaður og frekar sendinn jarðvegur sem drenar vel.

Túlipani 'American Dream' (Darwin-túlipani)

    170
    0