D

Delphinium - Riddarasporar
Riddarasporar, Delphinium, er fjölskúðug ættkvísl í sóleyjaætt, Ranunculaceae, með um 300 tegundum. Flestar eru tignarlegir fjölæringar með heimkynni um norðanvert tempraða beltið og suður til fjalla Afríku. Mest er ræktað af kynbættum yrkjum í görðum.
-
Delphinium x cultorum - riddaraspori

Dianthus - Drottningablóm
Dianthus, drottningablóm, er stór ættkvísl í hjartagrasaætt, Caryophyllaceae, með um 300 tegundum sem flestar eiga heimkynni við Miðjarðarhafið, norður eftir Evrópu og austur til Asíu. Flestar mynda lága brúska eða breiður og vaxa best í þurrum, grýttum jarðvegi á sólríkum stað og henta því vel í steinhæðir.

Dicentra - Hjartablóm
Hjartablóm, Dicentra, er lítil ættkvísl í draumsóleyjaætt, Papaveraceae, (áður reykjurtaætt) með um 8 tegundum sem vaxa í N-Ameríku og A-Asíu. Þau hafa margskipt, þunn laufblöð og óreglugega löguð blóm sem minna oft á hjarta. Þau vaxa í sól eða hálfskugga í næringarríkri mold. Hjartablóm, Dicentra spectabilis, hefur nýlega verið flutt í sér ættkvísl, Lamprocapnos, en verður áfram haft hér undir sínu gamla heiti.
