E

Edraianthus - Bikarklukkur
Bikarklukkur, Edraianthus, er lítil ættkvísl líkra tegunda í bláklukkuætt, Campanulaceae, sem vaxa í fjöllum Balkanskaga. Þetta eru smávaxnar fjallaplöntur sem mynda þúfur striklaga laufblaða með klukkulaga blómum á stuttum stilkum. Þær kjósa helst að kúra á milli steina þar sem sólin skín og eins og margar aðrar fjallaplöntur kunna þær alls ekki að meta vetrarumhleypinga.

Epimedium - Biskupshúfur
Biskupshúfur, Epimedium, er frekar lítil ættkvísl í mítursætt, Berberidaceae. Flestar tegundir eiga heimkynni í Kína. Þetta eru skógarplöntur sem kjósa helst frjóan og rakan jarðveg á skuggsælum stað. Ung laufblöð eru oft litrík og eru ekki síðra skraut en blómin sem ættkvíslin dregur nafn sitt af.

Eranthis - Vorboðar
Eins og nafnið bendir til eru blóm vorboða, Eranthis, með þeim fyrstu sem birtast á vorin. Þetta er lítil ættkvísl um 8 tegunda í sóleyjaætt, Ranunculaceae, með heimkynni í S-Evrópu og austur yfir Asíu til Japans. Þær eru lágvaxnar skógarbotnsplöntur sem nýta birtuna áður en trén laufgast til að blómgast sínum gulu eða hvítu blómum. Laufið vex eftir blómgun og fölnar þegar skuggsælt er orðið í skógunum.