Oftast er upphaf nútímarósa miðað við fyrsta terósarblendinginn sem talið er að hafi litið dagsins ljós 1867.

Terósablendingar (Hybrid Teas)
 

Terósablendingar urðu til við kynblöndun milli hinna viðkvæmu terósa og harðgerðari síblómstrandi blendinga.  Útkoman varð glæsilegar plöntur sem voru harðgerðar um stærstan hluta vestur- og mið-Evrópu, síblómstrandi með stórum, fagurlega löguðum blómum í öllum litaskalanum að bláum undanskildum.  Þær eru enn í dag vinsælustu garðrósirnar á heimsvísu.  Því miður eru fæstar nógu harðgerðar til að þrífast vel hérlendis, þó nokkrar undantekningar séu þar á, en þær þurfa nokkuð nostur til að blómstra vel. 

Moskusrósablendingar (Hybrid Musks)

Moskurósablendingar urðu til við blöndun terósablendinga við klifurrósina R. multiflora.  Flestar komu fram á Bretlandi og Þýskalandi milli 1913 og seinni heimsstyrjaldarinnar.  Þetta eru síblómstrandi runnar (klifurplöntur í heitara loftslagi) með stórum klösum af frekar smáum blómum sem geta verið einföld eða fyllt og yfirleitt ilmandi.  Eru líklegast frekar viðkæmar hérlendis þó óljóst sé hversu margar sortir hafi verið reyndar hér.

Klasarósir (Floribundas/Polyanthas)

Blendingar milli terósablendinga og afkomenda R. multiflora.  Þær líkjast terósablendingum en blómin eru í klösum.  Eins og terósablendingarnir eru þær frekar viðkvæmar hérlendis.

Klifur- og flækjurósir (Climbers/Ramblers)

Blendingar ýmissa flækjurósategunda s.s. R. arvensis, R. banksiae, R. sempervirens, R. setigera og R. beggeriana. Flestar eru stórvaxnar og einblómstrandi, margar með litlum blómum í stórum blómklösum.

Nútímarunnarósir (Modern Shrub roses)

Rósir sem komið hafa fram á síðustu 100 árum og passa ekki í ofangreinda flokka eru yfirleitt flokkaðar sem nútíma runnarósir.  Þær líkjast oft stórvöxnum terósarblendingum eða klasarósum og líkjast á engan hátt runnum við íslenskar aðstæður.  Þær myndu flestar flokkast sem beðrósir hér.  Margar eru harðgerðari en fyrrgreindir flokkar nútímarósa og líklegri til að standast íslenskar aðstæður.

 

Nútíma klifurrósir eru í raun stórvaxnar nútíma runnarósir frekar en eiginlegar klifurrósir.   Þær hafa langar, veikburða greinar sem þurfa stuðning.  Flestar eru lotublómstrandi. Flestar þeirra verða ekki hávaxnar hér á landi og eru því ekki flokkaðar sér.

David Austin enskar rósir

Nútíma runnarósir ræktaðar af David Austin í Bretlandi.  Einkennast af stórum, mikið fylltum blómum sem líkjast gömlu evrópsku antíkrósunum, nema í breiðara litaúrvali og síblómstrandi.  Stundum flokkaðar sér sem Austin eða Nýjar enskar rósir.

Explorer rósir

Nútíma runnarósir ræktaðar í Kanada til að ná fram mjög frostþolnum rósum.   Harðgerðar villtar tegundir hafa verið blandaðar harðgerðustu nútíma blendingum.  Margar eru af rugosa kyni og þrífast vel hérlendis.  Þær eru oft flokkaðar með eldri ígulrósablendingum.

Parkland rósir

Nútíma runnarósir ræktaðar í Kanada eins og Explorer rósirnar.  Heldur viðkvæmari en Explorer rósirnar.​

Miniflora rósirNýr rósaflokkur sem samþykktur var af bandaríska rósafélaginu (American Rose Society) árið 1999. Þær eru minni en hefðbundnar klasarósir en stærri en smáu pottarósirnar (miniature roses).

Þekjurósir (Ground cover/Procumbent roses)Nútíma runnarósir sem eru jarðlægar, þ.e. meiri á breiddina en hæðina.  

  • Facebook App Icon

gardaflora@gardaflora.is    I     © 2015-2020  Garðaflóra.