MorgunlaukurÞað var ást við fyrstu sýn. Það var bara þannig. Ég var í garðaskoðun á vegum Garðyrkjufélags Íslands og þarna var hann. Þessi dásamlega fallegi morgunlaukur. Ekki bara í einum garði, heldur tveimur. Ég sá það þarna að það var enginn garður með görðum nema þar yxi þessi dásamlega fallega planta. Það tók mig nú einhver ár að eignast gersemina þar sem ég þurfti að rækta hana upp af fræi. En síðan hefur hann vaxið og dafnað, því hann er ekki bara fallegur, heldur harðgerður líka.


Morgunlaukur tilheyrir ættkvísl lauka og vex til fjalla á N-Ítalíu í frekar grýttum jarðvegi. Fræðiheitið er Allium insubricum, sem vísar í Insubriu, fornt heiti á svæðinu í kringum Mílanó.

Hann er sæmilega skuggþolinn og þolir vel skugga part úr degi. Ég held að hann geri engar sérstakar kröfur um jarðveg, en vilji maður gera vel við hann er gott að hafa moldina svolítið malarblandaða.

Yndisleg garðplanta sem ekkert þarf að hafa fyrir, bara dást að.

Viljir þú leggja okkur lið og deila myndum og reynslu þinni af ræktun þessarar plöntu með öðru garðáhugafólki er þetta rétti staðurinn til þess.


gardaflora@gardaflora.is    I     © 2015-2019  Garðaflóra.

  • Facebook App Icon