Balkansnotra 'Blue Shades'
Balkansnotra (Anemone blanda) er falleg vorblómstrandi planta sem stendur yfirleitt í blóma mestallan maímánuð. Hún vex villt við Miðjarðarhafið þar sem sumrin eru þurr og verður því fallegust í vel framræstum jarðvegi. Hún visnar eftir blómgun, svo gera þarf ráð fyrir að fylla upp í skarðið sem myndast þegar blómgun líkur. Hún þrífst vel í steinhæðum, en líka undir trjám þar sem jarðvegur verður þurr eftir að trén laufgast. Hún þolir vel skugga part úr degi, en þarf að fá einhverja sólarglætu.

'Blue Shades' er lágvaxin sort með bláum blómum. Það er meira en áratugur síðan ég gróðursetti nokkur hnýði að hausti. Hún var mjög smávaxin lengi framan af og blómstraði sparlega, en hefur náð góðri grósku eftir að hún flutti í nýja garðinn, þar sem ég gróðursetti hana í brekku ofan við steinhleðslu.

Viljir þú leggja okkur lið og deila myndum og reynslu þinni af ræktun þessarar plöntu með öðru garðáhugafólki er þetta rétti staðurinn til þess.


gardaflora@gardaflora.is    I     © 2015-2019  Garðaflóra.

  • Facebook App Icon