Garðavatnsberi 'McKana's Giants'Ég kynntist hinum litfögru garðavatnsberum (Aquilegia x hybrida) fyrst sem sporasóleyjum í garðinum hans afa. Það voru fallegustu blóm sem ég hafði augum litið. Sporasóley er mjög lýsandi heiti þar sem blómin hafa langa spora og plönturnar tilheyra sóleyjaætt. Viðurkennda heiti ættkvíslarinnar Aquilegia er þó vatnsberar og á þessum tiltekna blendingahóp garðavatnsberar svo við höldum okkur við það.

'McKana's Giants' er gamalt yrki sem kom fram um 1950 með stórum, litskrúðugum blómum í blönduðum litum. Þau eru tvílit í hinum ýmsu litasamsetningum. Krónublöðin eru oftast gul eða hvít og bikarblöðin og sporarnir geta verið bleik, rauð, fjólublá eða blá. Sporarnir eru langir og útsveigðir.

Þetta eru harðgerðar plötnur sem þola nokkurn skugga og gera engar sérstakar jarðvegskröfur. Þeir geta sáð sér nokkuð og blandast auðveldlega öðrum vatnsberum og hef ég fengið nokkrar fallegar plöntur út úr slíku einkaframtaki. Það þýðir þó að safni maður fræi af plöntum úti í garði, fær maður ekki endilega plöntur með sömu útlitseinkenni og foreldrarnir. Blómstönglarnir leggjast niður svo til að þeir fái notið sín sem best þarf að hafa fyrir því að binda þá upp.

Viljir þú leggja okkur lið og deila myndum og reynslu þinni af ræktun þessarar plöntu með öðru garðáhugafólki er þetta rétti staðurinn til þess.


gardaflora@gardaflora.is    I     © 2015-2019  Garðaflóra.

  • Facebook App Icon