Rannveig

fullDatetime-to-read.short-label

Gróðursetning haustlauka

Það að setja niður blómlauka að hausti, felur í sér þá trú á framtíðina að hvernig sem veturinn verður, þá mun vora á ný. Hvort sem vorar seint eða snemma, hvort sem vorið verði kalt eða hlýtt, vorið kemur alltaf að lokum. Og með vorinu birtast vorblómin, flest þeirra vorblómstrandi blómlaukar. Það er góð tilfinning að hafa eitthvað að hlakka til. Og þar að auki - hvað er betra en að dunda við að pota niður laukum á fallegum haustdegi? Núvitund af besta tagi sem gefur líka fyrirheit um að framtíðin boði eitthvað gott.

Darwin-túlipani 'Daydream'

Ég gróðurset helst alla blómlauka innan um fjölærar plöntur. Ég reyni að forðast að gróðursetja blómlauka í námunda við runna, en í þeim tilvikum þarf að passa að planta þeim ekki of nálægt runnum sem eiga eftir að stækka, því þá hverfa laukplönturnar inn í runnana þegar þeir stækka. Með því að gróðursetja blómlaukana innan um fjölærar plöntur, mun bera minna á laufi þeirra á meðan það er að visna niður. Þetta skiptir sérstaklega miklu máli með fjölærar laukplöntur eins og páskaliljur sem þurfa að safna forða í laukana til að blómstra vel að ári. Þess vegna er best að velja þeim stað innan um plöntur sem verða ekki mikið hærri en laukplönturnar, þannig að laufið falli inn í gróðurinn í kring, en fái þó næga birtu til að safna forða í laukana.

Dýptin sem gróðursett er á ræðst af stærð laukana. Þumalputtareglan er að miða við að dýptin sér þreföld hæð lauksins, þannig að stærri laukar eru gróðursettir dýpra en minni laukar. Það þarf því töluvert dýpri holu til að gróðursetja páskalilju- eða keisaraliljulauka, heldur en smáa lauka eins og krókusa eða perluliljur. Hér þarf ekki að taka fram tommustokkinn, það er nóg að miða dýptina lauslega út frá stærð laukanna eins og ég sýni í myndbandinu hér að neðan. Það er því ágætis regla að moka moldinni bara til annarrar hliðar holunnar, þannig að hæð moldaryfirborðsins sé vel sýnileg. Ég nota litla skóflu, óháð laukstærð vegna þess að ég er búin að gróðursetja svo mikið magn af laukum að líkurnar á því að stinga skóflu í gegnum lauka sem eru fyrir eru orðnar talsverðar. Ég hef því þann háttinn á að nota litla skóflu og ýta moldinni til hliðar, frekar enn að stinga skóflunni beint niður. Í beðum sem eru ekki alveg eins þéttsetin og mín, er að sjálfsögðu fljótlegra að grafa holu með stærri skóflu ef um stærri lauka er að ræða.

Í þessu myndbandi sýni ég gróðursetningu á túlipönum. Þessa sömu aðferð má nota fyrir allar aðrar tegundir af laukum, bara aðlaga dýptina að laukstærðinni hverju sinni.

Í myndbandinu set ég laukana niður mjög þétt saman, með nánast engu millibili. Það stafar fyrst og fremst af plássleysinu í beðinu, það er ágætt að hafa smá bil, kannski sem nemur breidd litlafingurs, en það er óþarfi að hafa það mikið meira en það. Það kemur ekki að sök að gróðursetja laukana þétt og persónulega finnst mér þeir njóta sín best þegar þeir standa þétt saman eins og blómvöndur.

    180
    0