top of page
2020-06-10 20-45-53.JPG

Um Garðaflóru

Sagan

Upphafið

 

Vefsíða Garðaflóru fór í loftið árið 2009 og var upphaflegt markmið síðunnar að safna saman upplýsingum um þær garðplöntur sem eru í ræktun á Íslandi og miðla þeim á aðgengilegan hátt til þeirra sem fást við garðrækt.  Það var aldrei ætlun mín að sjá ein um þá upplýsingaöflun, draumurinn var að skapa vettvang þar sem notendur síðunnar gætu deilt myndum og sinni reynslu af ræktun plantna og að þannig yrði til aðgengilegt yfirlit yfir þær plöntur sem hafa verið reyndar hérlendis, hverjar hafa þrifist vel og hverjar ekki, og við hvaða aðstæður. Þetta reyndist nokkuð snúið tæknilega og varð ekki að aðgengilegum möguleika fyrr en með tilkomu spjallsvæðisins hér á síðunni í lok árs 2017. Spjallsvæðið var plagað af tæknilegum örðugleikum í upphafi sem hafa nú verið leystir eftir því sem ég best veit. Þar er nú mögulegt að deila reynslusögum og myndum af þeim plöntum sem fjallað er um á síðunni. Þrátt fyrir að möguleikinn sé loksins til staðar, hefur þetta markmið því miður ekki náðst, því fólk virðist tregt til að leggja til efni af einhverjum ástæðum.

 

Þær upplýsingar sem eru á síðunni nú byggjast að stærstu leiti á því myndasafni sem ég á af mínum plöntum og minni reynslu af því að rækta þær, fyrst í Norðubæ Hafnarfjarðar og nú í Suðurbænum. Ég hef fengið nokkuð af aðsendum myndum og upplýsingum í gegnum tíðina og kann ég þeim sem hafa lagt til efni bestu þakkir fyrir aðstoðina. 

Nýir tímar

Samlagsfélagið Garðaflóra slf. var stofnað í mars 2021. Eftir að hafa staðið ein undir rekstri vefsíðunnar í 12 ár var komið að þolmörkum og nauðsynlegt að leita leiða til að afla tekna sem gætu staðið undir rekstrarkostnaði vefsíðunnar. Aðsókn á vefsíðuna hefur ekki verið nægilega mikil til að standa undir auglýsingatekjum, svo ég ákvað að opna vefverslun til að reyna að ná inn einhverjum tekjum. Með því að versla í vefverslun Garðaflóru styðjið þið því við áframhaldandi starfsemi vefsíðunnar.

Starfsemin

Vefverslun Garðaflóru býður upp á garðyrkjutengdar vörur, sem ég nota sjálf og get mælt með, á eins hagstæðu verði og kostur er. Álagningin er því í algjöru lágmarki, en þarf þó að vera nægilega há til að standa undir rekstrarkostnaðinum, og helst skila hagnaði, svo hægt sé að bæta við vöruúrval verslunarinnar.

Garðaflóra slf. rekur ekki garðyrkjustöð. Mín plönturæktun hefur miðast við að prófa nýjar tegundir til að geta fjallað um þær á vefsíðunni. Ræktunin fer fram heima í frekar takmörkuðu rými. Þær plöntur sem eru til sölu í vefversluninni hverju sinni eru afgangs plöntur úr þessari ræktun og plöntur sem ég hef þurft að grisja í garðinum. Framboðið hverju sinni takmarkast því við það sem ég hef verið að rækta upp af fræi undanfarin ár og hvað hefur þurft á grisjun að halda hverju sinni. Það eru því yfirleitt mjög fá eintök af hverri tegund í boði og ólíklegt að sama tegund komi aftur í sölu eftir að hún klárast, nema hún vaxi svo vel að það þurfi að grisja hana, eða hún drepst og ég ákveð að reyna aftur að rækta hana upp af fræi. Slíkt hefur hent.

Vorið 2022 flutti ég inn töluvert magn af fjölærum plöntum, allt ræktaðar sortir sem ekki er hægt að fjölga með sáningu. Var aðaláherslan á brúskusortir (Hosta) og musterisblóm, en margt annað fylgdi líka með sem mér fannst áhugavert að prófa. Er von á annarri plöntusendingu vorið 2023 með enn fleiri áhugaverðum sortum.

Í ársbyrjun 2023 

Ég mun halda áfram að miðla upplýsingum og reynslu minni af ræktun garðplantna, bæði með fræðsluefni og með því að halda áfram að bæta inn umfjöllun um þær plöntur sem ég er að rækta. Ég lifi enn í voninni um að það komi að því að spjallsvæðið glæðist og fólk sjái ástæðu til að setja þar inn efni. Með því að leggja til efni á garðaspjallinu aukið þið gildi síðunnar til hagsbóta fyrir alla sem stunda garðyrkju á Íslandi.

Persónan á bak við Garðaflóru

 

Ég er lyfjafræðingur að mennt, en hef haft brennandi garðyrkjuáhuga frá unga aldri.  Ég hef verið félagi í Garðyrkjufélagi Íslands síðan ég eignaðist minn fyrsta garð 1996.  Á þeim tíma hef ég safnað fjölda fjölæringa sem ég hef að miklu leiti ræktað upp af fræi, ásamt rósum, skrautrunnum og trjám.  Það er óhætt að segja að ég sé haldin plöntusöfnunaráráttu á háu stigi og hef mikinn áhuga á að prófa nýjar tegundir.   Ég hef því tilfinnanlega fundið fyrir skorti á upplýsingum um hvað hefur verið reynt hér og með hvaða árangri og varð það kveikjan að þessari vefsíðu.  Mér þykir líklegt að allt sem ég hef prófað hafi fleiri reynt líka í sínu garðshorni með óþekktum árangri og er það von mín að með þessari síðu geti slík tilraunaræktun orðið markvissari og skilað aukinni þekkingu til annarra garðræktenda.

Stuttu eftir að ég útskrifaðist sem lyfjafræðingur greindist ég með vefjagigt og árið 2000 þurfti ég að láta af störfum vegna veikindanna. Ég hef verið metin með 75% örorku síðan. Vefjagigtin gerir það að verkum að ég hef mjög takmarkað þrek og að auki glými ég við stoðkerfisvanda sem auðveldar ekki beint garðyrkjustörfin. Ég hef því þurft að læra inn á að beita mér rétt, gera hæfilega lítið í einu og leita leiða til að gera hlutina á eins einfaldan hátt og mögulegt er.  Sumir myndu kannski segja að best væri þá að sleppa þessu garðyrkjubrölti bara, en garðyrkjuáhuginn er það sem hefur haldið mér gangandi og gefur mikla andlega næringu, þó skrokkurinn kvarti oft sáran. Ég hef því óbilandi trú á gildi garðyrkju til að stuðla að andlegri vellíðan og streitulosun. Það koma dagar og vikur þar sem ég get lítið unnið í garðinum og þá er það bara þannig. Það er mikilvægt að vera ekki að svekkja sig á því að hlutirnir séu ekki fullkomnir, það er næsta víst að illgresið fer ekki neitt og um að gera að einbeita sér bara að því að njóta og gleðjast yfir því sem maður getur gert hverju sinni.

 

Árið 2013 flutti ég og tók stóran hluta af pöntusafninu með mér. Sumt var ekki hægt að flytja, annað drapst í flutningnum, en stór hluti hefur fengið stað í nýja garðinum, sem er enn í vinnslu, og nýjar plöntur bætast stöðugt við.

UndirskriftRG.png
bottom of page