
Um Garðaflóru
Sagan
Upphafið
Vefsíða Garðaflóru fór í loftið árið 2009 og var upphaflegt markmið síðunnar að safna saman upplýsingum um þær garðplöntur sem eru í ræktun á Íslandi og miðla þeim á aðgengilegan hátt til þeirra sem fást við garðrækt. Það var aldrei ætlun mín að sjá ein um þá upplýsingaöflun, draumurinn var að skapa vettvang þar sem notendur síðunnar gætu deilt myndum og sinni reynslu af ræktun plantna og að þannig yrði til aðgengilegt yfirlit yfir þær plöntur sem hafa verið reyndar hérlendis, hverjar hafa þrifist vel og hverjar ekki, og við hvaða aðstæður. Þetta reyndist nokkuð snúið tæknilega og varð ekki að aðgengilegum möguleika fyrr en með tilkomu spjallsvæðisins hér á síðunni í lok árs 2017. Spjallsvæðið var plagað af tæknilegum örðugleikum í upphafi sem hafa nú verið leystir eftir því sem ég best veit. Þar er nú mögulegt að deila reynslusögum og myndum af þeim plöntum sem fjallað er um á síðunni. Þrátt fyrir að möguleikinn sé loksins til staðar, hefur þetta markmið því miður ekki náðst, því fólk virðist tregt til að leggja til efni af einhverjum ástæðum.
Þær upplýsingar sem eru á síðunni nú byggjast að stærstu leiti á því myndasafni sem ég á af mínum plöntum og minni reynslu af því að rækta þær, fyrst í Norðubæ Hafnarfjarðar og nú í Suðurbænum. Ég hef fengið nokkuð af aðsendum myndum og upplýsingum í gegnum tíðina og kann ég þeim sem hafa lagt til efni bestu þakkir fyrir aðstoðina.
Nýir tímar
Samlagsfélagið Garðaflóra slf. var stofnað í mars 2021. Eftir að hafa staðið ein undir rekstri vefsíðunnar í 12 ár var komið að þolmörkum og nauðsynlegt að leita leiða til að afla tekna sem gætu staðið undir rekstrarkostnaði vefsíðunnar. Aðsókn á vefsíðuna hefur ekki verið nægilega mikil til að standa undir auglýsingatekjum, svo ég ákvað að opna vefverslun til að reyna að ná inn einhverjum tekjum. Með því að versla í vefverslun Garðaflóru styðjið þið því við áframhaldandi starfsemi vefsíðunnar.
Starfsemin
Vefverslun Garðaflóru býður upp á garðyrkjutengdar vörur, sem ég nota sjálf og get mælt með, á eins hagstæðu verði og kostur er. Álagningin er því í algjöru lágmarki, en þarf þó að vera nægilega há til að standa undir rekstrarkostnaðinum, og helst skila hagnaði, svo hægt sé að bæta við vöruúrval verslunarinnar.