GARÐAFLÓRA

 

Markmið Garðaflóru er að safna saman upplýsingum um þær garðplöntur sem eru í ræktun á Íslandi og miðla þeim á aðgengilegan hátt til þeirra sem fást við garðrækt.    Það er von mín að þannig verði til nokkuð tæmandi yfirlit yfir þær plöntur sem hafa verið reyndar hérlendis, hverjar hafa þrifist vel og hverjar ekki.  Á hverri plöntusíðu er umsagnarreitur þar sem hægt er að setja inn bæði texta og myndir. Einnig er hægt að deila reynslusögum á spjallsvæðinu.

 

Þær upplýsingar sem eru á síðunni nú byggjast að stærstu leiti á því myndasafni sem ég á af mínum plöntum.  Upplýsingar um plönturnar eru byggðar á minni reynslu í norðurbæ Hafnarfjarðar í mjög grónu hverfi og síðar við sjávarsíðuna í suðurbæ Hafnarfjarðar.  Upplýsingar um hæð eru að mestu leiti áætlaðar eftir minni og því ekki óskeikular.  Þær verða endurskoðaðar eftir því sem tími vinnst til.   

Aðsent efni: 

Kristleifur Guðbjörnsson, Mosfellsbæ hefur lagt til heilmikið myndasafn af þeim rósum sem hann er með í garðinum sínum.

Nanna S. Baldursdóttir, Grafarvogi, Rvk

Ólafur Sturla Njálsson í Nátthaga.

Ruth Fjelsted, Reykjavík

Steinunn Hlynsdóttir, Reykjavík

 

Kann ég þeim bestu þakkir fyrir góðar upplýsingar og myndir.

Skriflegar heimildir: 

Fjölærar plöntur, sumarblóm og haustlaukar:  

  • Íslenska Garðblómabókin eftir Hólmfríði A. Sigurðardóttur. 2005

Tré og runnar:

  •  Tré og runnar: Handbók ræktunarmannsins eftir Ásgeir Svanbergsson. 1989.

  • Bókaflokkurinn Við ræktum:

    • Lauftré á Íslandi eftir Auði I. Ottesen, Tryggva Marinósson og Þórarinn Benedikz 2006

    • Barrtré á Íslandi, eftir Auði I. Ottesen og Þórarinn Benedikz 2006

Rósir:

  • Passion for Roses eftir Peter Beales. 2004

  • The Royal Horticultural Society Encyclopedia of Roses eftir Charles & Brigid Quest-Ritson. 2003

Stofnandi og ritstjóri síðunnar

 

Ég er lyfjafræðingur að mennt en hef haft brennandi garðyrkjuáhuga frá unga aldri.  Ég hef verið félagi í Garðyrkjufélagi Íslands síðan ég eignaðist minn fyrsta garð 1996.  Á þeim tíma hef ég safnað fjölda fjölæringa sem ég hef að miklu leiti ræktað upp af fræi, ásamt rósum, skrautrunnum og trjám.  Það er óhætt að segja að ég sé haldin plöntusöfnunaráráttu á háu stigi og hef mikinn áhuga á að prófa nýjar tegundir.   Ég hef því tilfinnanlega fundið fyrir skorti á upplýsingum um hvað hefur verið reynt hér og með hvaða árangri og varð það kveikjan að þessari vefsíðu.  Mér þykir líklegt að allt sem ég hef prófað hafi fleiri reynt líka í sínu garðshorni með óþekktum árangri og er það von mín að með þessari síðu geti slík tilraunaræktun orðið markvissari og skilað aukinni þekkingu til annarra garðræktenda.

Árið 2013 flutti ég og tók stóran hluta af pöntusafninu með mér. Sumt var ekki hægt að flytja, annað drapst í flutningnum, en stór hluti hefur fengið stað í nýja garðinum, sem er enn í vinnslu. 

Rannveig Guðleifsdóttir

  • Facebook App Icon

gardaflora@gardaflora.is    I     © 2015-2020  Garðaflóra.