top of page
2006-07-12_3492edit.jpg

NEEM OLÍA

Upplýsingar og notkunarleiðbeiningar

Neem leaf.jpeg

Neem olía er náttúruleg jurtaolía sem er unnin úr aldinum dísartrésins, Azadirachta indica sem á heimkynni á Indlandsskaga.

Hvað er neem olía?

Neem olía er jurtaolía sem unnin er úr aldinum dísartrésins, Azadirachta indica, sem á heimkynni á Indlandsskaga. Olían sem Garðaflóra býður til sölu er 100% hrein, kaldpressuð neem olía sem er framleidd og pökkuð á Indlandi.

 

Hvers vegna er neem olía notuð í garðrækt?

Það er löng hefð fyrir notkun á neem olíu í garðrækt víða um heim, bæði gegn meindýrum og sjúkdómum. Hún inniheldur m.a. efnið azadirachtin sem er viðurkennt innihaldsefni í plöntuvarnarefni og er a.m.k. ein vara á markaði hér á landi þar sem azadirachtin er virka efnið. Það hefur fjölþætta verkun, m.a. veldur það lystarleysi hjá skaðvöldum sem nærast á laufi. Magn azadirachtins í hreinni neem olíu er breytilegt og mun lægra heldur en í slíkum vörum. Í olíunni sem er til sölu hjá Garðaflóru er styrkur azadirachtins < 2000 ppm (1600-1800 ppm). Hrein neem olía flokkast því ekki sem plöntuvarnarefni og er óheimilt að markaðssetja hana sem slíka. Hún stuðlar þó að plöntuheilbrigði, gefur laufinu fallegan gljáa og gerir það mjög gróskulegt án þess að hafa neikvæð umhverfisáhrif. 

Hvers vegna að bjóða neem olíu til sölu?

Ég er ein af þeim sem vil helst ekki nota eitur nema í algjörri neyð og því er ég stöðugt að leita eftir náttúrulegum aðferðum til að halda meindýrum í skefjum. Mig hefur lengi langað til að prófa neem olíu, því ég hef svo oft rekist á umfjöllun um hana á netinu. Samkvæmt þeim upplýsingum sem má finna á veraldarvefnum, er neem olía mikið undraefni og nánast allra meina bót. Ég tek því nú með ákveðnum fyrirvara, en mig langaði samt að prófa hana sjálf og sjá hvaða áhrif hún hefur í raun og veru. Ég komst að því að neem olían er úrvals laufgljái og plönturnar mínar hafa sjaldan verið eins hraustlegar að sjá.  Ég ákvað því að bjóða olíuna til sölu, ef fleiri skyldu vilja náttúrulegan, umhverfisvænan laufgljáa sem gefur plöntunum hraustlegt útlit. Það má nota hana á stofuplöntur lika. 

Það hefur líka verið sýnt fram á sveppadrepandi virkni neem olíu í rannsóknum og er hún m.a. notuð í húðvörur.

 

Mín reynsla

Ég útvegaði mér neem olíu veturinn 2021 til að prófa, bæði inni í gróðurhúsi og úti í garði og hef notað hana síðan. Í gróðurhúsinu mínu hafa blaðlýs og kögurvængjur (thrips) verið viðvarandi vandamál. Eftir að ég byrjaði að prófa mig áfram með neem-olíuna hefur ástandið batnað töluvert. Lúsin kemur alltaf aftur, en það sem hefur gefist best í gróðurhúsinu er að vökva bæði yfir plönturnar og í moldina. Ég hef líka notað hana úti í garði síðustu tvö sumur á rósir og annað sem verður illa fyrir barðinu á fiðrildalirfum. Ég úðaði fyrst þegar plönturnar voru að laufgast til að athuga hvort hún hefði einhver fyrirbyggjandi áhrif, sem hún gerði ekki. Svo úðaði ég tvisvar eftir að merki um lirfur voru orðin sjáanleg og það sem var úðað var áberandi betra, en það sem ég úðaði ekkert, þ.e. það var lauf á því sem ég úðaði, en það sem var ekkert úðað var nánast lauflaust. Ég prófaði líka að úða víðiplöntu sem asparglyttan herjaði grimmt á, en neem olían hafði engin áhrif á bjöllurnar, þær héldu sínu striki ótrauðar. Aftur á móti bólaði ekkert á lirfum asparglyttunar á þeim runna, svo ég gat ekki prófað áhrif neem olíunnar á þær.  Ég tek það aftur fram að neem olía er ekki varnarefni, hún útrýmir ekki meindýrum.  Hún virðist þó gagnast til að halda aftur af meindýrum og lágmarka þannig skemmdir af þeirra völdum af minni reynslu að dæma. Neem olía getur því verið valkostur fyrir þá sem vilja ekki nota eitur, en það þarf að úða oftar en einu sinni og jafnvel oftar en tvisvar. Í gróðurhúsi þarf að úða/vökva reglulega yfir allt sumarið, en þó þarf að varast að úða of oft og gott að skola laufið öðruhvoru með vatni á milli þess sem það er úðað. Það þarf ekki að endurtaka eins oft ef vökvað er, áhrifin virðast vara lengur þannig, enda taka plönturnar virka efnið upp í gegnum ræturnar. Plöntur með þunnt lauf geta verið viðkvæmar fyrir neem olíunni, svo það er æskilegt að prófa að úða lítinn hluta af plöntunni fyrst til að athuga hvort hún þolir hana. Samkvæmt minni reynslu er í lagi að úða henni á flestar plöntur, en ilmertur þola hana ekki.

 

Notkunarleiðbeiningar:

Neem olía er á föstu formi við hitastig undir 21°C og er því alveg á mörkum þess að teljast olía frekar en vax. Henni er blandað í vatn fyrir notkun og til þess að hún blandist við vatnið þarf að blanda sápu út í. Það er mikilvægt að vatnið sé vel heitt, ekki brennandi heitt, en helst um 40°C svo olían haldist á fljótandi formi á meðan á notkun stendur. Þar sem hún er alveg á mörkum þess að vera fljótandi við stofuhita, getur þurft að hita olíuna upp áður en hún er notuð. Það er auðvelt með því að halda henni undir heitu rennandi vatni, setja brúsann í heitt vatnsbað í nokkrar mínútur eða á heitan miðstöðvarofn þar til hún verður vel fljótandi. Blöndunarhlutfallið er 5-10 ml af olíu í 1 l af vatni. Olíuna skal geyma á stað þar sem sól skín ekki á flöskuna.

Uppskrift að blöndu til að úða með:

1 tsk neem olía

1 tsk sítrónudropar (má sleppa)

1/2 tsk uppþvottalögur (helst svansmerktur) 

fyllt að 1 l með heitu vatni (ca. 40°C)

Neem olía hefur mjög einkennandi lykt sem minnir svolítið á hvítlauk. Sítrónudroparnir gefa aðeins frísklegri ilm, þó þeir nái ekki að yfirgnæfa lyktina af neem olíunni, en það getur verið kostur í lokuðu rými svo sem gróðurhúsi. Olíu, sítrónudropum og sápu er blandað saman í krukku og 1-2 msk af snarpheitu vatni blandað saman við. Hrist vel saman þar til olían hefur dreifst vel. Hellt í mælikönnu og fyllt upp að 1 l með snarpheitu vatni. Hellt á úðabrúsa. Notist strax á meðan vatnið er heitt. Ágætt er að hrista upp í blöndunni öðruhvoru svo olían skiljist ekki frá ef mikið magn er blandað í einu.

Uppskrift að blöndu til að vökva með:

 

Hentar betur t.d. á stofuplöntur eða fyrir plöntur í gróðurhúsi eða gróðurskála.

1 msk neem olía

2 tsk sírónudropar (má sleppa)

1/2 msk uppþvottalögur (helst svansmerktur)

fyllt að 2 l með heitu vatni (ca. 40°C)

Framleiðandinn:

Olían er framleidd og pökkuð af fyrirtækinu Halonutra á Indlandi, sem er lítið fyrirtæki sem leggur áherslu á að styðja við bændur í nágrenninu, með sérstakri áherslu á að skapa atvinnutækifæri fyrir konur.

bottom of page