Höfuðklukka er harðgerð, meðalhá bláklukkutegund sem blómstrar dökkfjólubláum blómum í hvelfdum klasa. Það eru ekki margar plöntur sem skarta svona dökkum fjólubláum blómum, svo hún er afskaplega falleg garðplanta. En hún hefur svolítið óorð á sér fyrir að vera helst til rösk til landvinninga.
Mín fyrstu kynni af henni voru í garðinum hennar ömmu þar sem hún gekk bara undir nafninu kampanula. Það lá við að þetta orð væri blótsyrði því hún þótti ansi óstýrlát. Hún óð út um allt og gaf skriðsóleynni lítið eftir.
Mér var gefin planta af höfuðklukku fyrir nokkrum árum sem er aftur á móti afskaplega stillt og situr bara eins og drottning á sínum stað. Í næsta garði vex aftur á móti frænka kampanulunnar hennar ömmu sem er búin að leggja undir sig stórt fjölæringa beð. Það er því greinilega mikill breytileiki innan tegundarinnar. Mögulega er mín eitthvert óþekkt yrki eða undirtegund. Hún er í öllu falli úrvals garðplanta.