Þyrnirósarblendingur (Hybrid Spinosissima)
'Mon Amie Claire' er einn af fáum lotublómstrandi þyrnirósarblendingum sem ræktaðir hafa verið og eins og þeir flestir er hann kominn af þeim fyrsta, 'Stanwell Perpetual'. Þessi rós var ræktuð af Louette í Belgíu, 2005. Fræið var frá 'Stanwell Perpetual' og frjógjafinn var villt, dvergvaxið afbrigði af þyrnirós sem var upprunnið á Quiberonskaga í Bretaníu.
Þessi rós er ný, ég hef bara átt hana í tvö sumur og hún blómstraði fyrst að ráði sumarið 2020. Blómin eru hálffyllt, fölbleik og ilma langar leiðir. Hún vex best í sól í vel framræstum jarðvegi og virðist þrífast ljómandi vel hingað til.