Eplarós
'Foilie Bleu' er yrki af eplarós með bláleitu laufi og er nafnið dregið af því. Samkvæmt upplýsingum frá Ólafi Sturlu Njálssyni í Nátthaga er þetta úrvalsyrki valið úr plöntum sem komu upp af fræi sem safnað var af Óla Val Hanssyni í Alaska 1985. Hann segir það þurfa frekar rýran jarðveg, í of frjóum jarðvegi vex það of mikið og kelur þá meira. Ég hef átt þessa rós í rúman áratug og lengst af þeim tíma hefur hún ekki verið að sýna sitt besta og er þar helst óhagstæðri staðsetningu um að kenna. Hún virðist loksins vera komin á stað sem hún þrífst á og er að tosast upp í að verða almennilegur runni. Það hefur ekki verið mikið kal, heldur hefur hún bara vaxið hægt. Helsti gallinn er að blómin standa frekar stutt, en hún er mjög blaðfögur.