
Þessi rós er algjört undur. Hún ilmar svo að það umlykur hana ilmský sem dásamlegt er að ganga í gegnum og því ber hún nafn með rentu. 'Duftwolke' þýðir einmitt ilmský. Þetta er sá terósarblendingur, sem ég hef prófað, sem hefur reynst best hjá mér. Hún þarf vetrarskýlingu og besta stað í garðinum, en hún launar gott atlæti með sýnum yndisfögru, ilmandi blómum. Ég hef prófað ýmsar aðferðir við að skýla viðkvæmum rósum að vetri til. Í gamla garðinum var ég með steinullarplötur sem ég festi í kringum rósirnar. Ég man ekki hversu lengi ég nennti að standa í því, en ég hætti því fyrir rest og minnir óljóst að ég hafi vafið þær í striga eftir það. Í nýja fína rósabeðinu í núverandi garði tjaldaði ég akrýldúk yfir allt beðið og það gafst afskaplega vel, þó að dúkurinn hafi farið í tætlur í vetrarstormum. Ég tjaldaði því aftur yfir beðið núna eftir áramótin. Kosturinn við það er að ég þarf ekki að hvolfa plastpokum yfir rósirnar í maí, því akrýldúkurinn gerir sama gagn, jafnvel þó hann sé götóttur. En það munar mikið um það að gefa rósinni gott start í maí og flýtir blómgun jafnvel um heilan mánuð.
Þetta er eðalrós.
Þessi fagra rós er líklega allt og viðkvæm fyrir mínar aðstæður í sveitinni i 100 m hæð. En Rannveig a) a) seturðu boga undir akryldúkinn, b) er hann einfaldur eða tvöfaldur hjá þér, c) Hvernig gengur þér að festa hann niður ? ? ?
Magga - hún þyrfti líklegast að vera í gróðurhúsinu yfir veturinn.
Við setjum boga sem eru festir innan á stoðvegginn á beðinu og svo settum við lista meðfram veggnum (sem er laus frá veggnum) sem hinn endi boganna er festur í. Dúkurinn er heftaður fastur á listann og bogarnir settir í þann enda, listanum lyft yfir rósirnar og slakað niður meðfram veggnum. Svo er bogunum smeygt í lykkjurnar á stoðveggnum, dúkurinn dreginn yfir rósirnar og heftaður fastur við stoðvegginn.
Dúkurinn kominn á - við drifum hann yfir áður en fraus núna eftir áramótin.
Dúkurinn er einfaldur, hann er 2 m á breidd, það er alveg í það tæpasta. Keyptum hann í Garðheimum. Okkur fannst hann mögulega aðeins þéttari í sér en þessi sem við notuðum í fyrra, svo vonir standa til að hann tætist ekki alveg eins mikið. Það á eftir að koma í ljós. :)
Dúkurinn var mjög tættur í vor og fór alveg í sundur í miðjunni þar sem snjóhengja ofan af þaki lenti. 'Duftwolke' var einmitt þar, svo hún varð ekki eins gróskumikil í sumar og í fyrra. Vona að það lendi engin snjóflóð á beðinu í vetur - þau hafa yfirleitt lent á stéttinni fyrir framan beðið