top of page

Forum Posts

Rannveig
12. des. 2022
In Burknar
Sverðuxatunga Sverðuxatunga er sígræn burknategund sem vex villt í vestanverðri N-Ameríku. Hann vex best í skugga eða hálfskugga, í frjóum, lífefnaríkum jarðvegi í góðu skjóli. Ég ræktaði mínar plöntur af gróum og plantaði einni út í beð í vor. Hún hefur vaxið vel og vonandi mun hún koma vel undan vetri.
Polystichum munitum content media
1
0
13
Rannveig
28. jún. 2022
In Tré og Runnar
Logabroddur 'Mystery Fire' er stórkostlega fallegt afbrigði af logabroddi sem er því miður í viðkvæmari kantinum fyrir íslenska veðráttu. Laufið er sígrænt, dökkgrænt á lit og glansandi og minnir mikið á lauf kristþyrnis (Ilex). Blómin eru nokkuð stór, appelsínugul og mörg saman í klasa. Aldinin eru blá ber. Hann þarf sólríkan vaxtarstað og mjög skjólgóðan. Líklega væri öruggast að gefa honum vetrarskýli, a.m.k. fyrstu árin. Hann lifði hjá mér tvö ár, en drapst eftir harðan vetur. Það var mikil eftirsjá af honum og ég væri alveg til í að reyna hann aftur.
Berberis x bidentata 'Mystery Fire' content media
0
0
47
Rannveig
28. jún. 2022
In Tré og Runnar
Sólbroddur 'Green Carpet' er lágvaxið afbrigði af sólbroddi með útbreiddan vöxt og bogasveigðar greinar. Laufið er grænt og fær eldrauða haustliti. Það fær sterkari haustliti ef hann vex á sólríkum stað. Hann hefur einu sinni blómstrað hjá mér og blómin eru kremhvít. Hann þarf skjólgóðan vaxtarstað, annars kelur hann mikið.
Berberis thunbergii 'Green Carpet' content media
0
0
17
Rannveig
28. jún. 2022
In Tré og Runnar
Sólbroddur 'Golden Torch' er afbrigði af sólbroddi með uppréttan, súlulaga vöxt og gulgrænt lauf. Hann hefur ekki blómstrað enn hjá mér, en blómin eiga að vera kremhvít. Hann fær mjög fallega haustliti, fölgulan í fyrstu sem roðnar svo. Þrífst vel, en kelur örlítið. Þarf frekar skjólsælan vaxtarstað og vex best í sól eða hálfskugga.
Berberis thunbergii 'Golden Torch' content media
0
0
16
Rannveig
27. jún. 2022
In Tré og Runnar
Sólbroddur Sólbroddur er þéttur runni, sem verður um 1-1,5 m á hæð. Þyrnarnir eru langir og hvassir, svo hann hentar ekki á staði þar sem líklegt er að rekast í greinarnar þegar fólk á leið framhjá. Hann blómstrar litum, gulum blómum og fær rauða haustliti. Laufið er rauðmengað í jöðrunum og roðnar meira eftir því sem líður á sumarið. Þetta er þokkalega harðgerður runni, en kelur yfirleitt eitthvað.
Berberis thunbergii content media
0
0
5
Rannveig
27. jún. 2022
In Tré og Runnar
Hlíðaramall Hlíðaramall er smávaxið, margstofna tré sem hefur fegurðargildi í garðinum allt árið um kring. Það blómstrar hvítum blómum snemmsumars og þroskar æt, dökkblá ber síðsumars. Það fær mjög fallega rauða og gula haustliti og eftir að laufið hefur fallið er prýði af gráum berkinum og fallegu vaxtarlagi. Það verður um 2-4 m á hæð. Hann þrífst vel í sól eða hálfskugga, en því meiri sól sem hann fær, því betri verður blómgun og berjaþroski. Hann þrífst best í frjóum, veiksúrum jarðvegi, en þolir þurrk og basískan jarðveg. Nokkuð harðgerður og kelur lítið. Hann verður illa étinn af fiðrildalirfum hjá mér, ef ekkert er að gert. Þar sem ég vil ekki nota eitur, hefur mér reynst vel að nota neemolíublöndu til að halda aftur af lirfunum.
Amelanchier alnifolia content media
0
0
8
Rannveig
27. jún. 2022
In Tré og Runnar
Hrossakastanía Hrossakastanía er frekar viðkvæm trjátegund sem þarf mjög sólríkan og skjólgóðan vaxtarstað til að þrífast. Við slík skilyrði getur hún þrifist og náð ágætri hæð. Það eru mjög fá dæmi um að hrossakastaníur hafi blómstrað hér á landi. Þær fá appelsínugula og rauða haustliti. Þrífst best í frjóum, rökum, vel framræstum jarðvegi.
Aesculus hippocastanum content media
0
0
8
Rannveig
27. jún. 2022
In Tré og Runnar
Gljákastanía Gljákastanía er trjátegund skyld hrossakastaníu, en laufið er slétt og gljáandi á glákastaníunni. Það er ekki komin löng reynsla af ræktun hennar hér á landi. Mínar plöntur eru af fræi sem rósaklúbburinn fékk sent frá Kanada. Hún þarf sólríkan og skjólgóðan vaxtarstað. Laufið fær gula og bronslita haustliti.
Aesculus glabra content media
0
0
10
Rannveig
18. maí 2022
In Tré og Runnar
Úlfarunni 'Pohjan Neito' er afbrigði af úlfarunna sem blómstrar hvelfdum kolli af stórum hvítum blómum. Blóm úlfarunna eru smá, í flötum sveip, umlukin kransi af stórum, ófrjóum blómum. 'Pohjan Neito' blómstrar eingöngu þessum stóru, ófrjóu blómum, svo hann þroskar ekki fræ. Laufið fær gula og rauðgula haustliti. Hann þarf sólríkan vaxtarstað í þokkalegu skjóli til að blómstra vel.
Viburnum opulus 'Pohjan Neito' content media
0
0
17
Rannveig
17. maí 2022
In Tré og Runnar
Lambarunni Lambarunni er stórgerður runni, sem verður stundum eins og lítið tré í vextinum. Laufið er grágrænt í fyrstu en verður svo grænt. Blómknúpparnir birtast strax við laufgun og blómin springa út í lok maí - júní eftir veðurfari. Þau eru smá, kremhvít í sveip. Haustlitir eru gulir og purpurarauðir. Hann vex best í sól eða hálfskugga í aðeins rökum jarðvegi. Hefur reynst ágætlega harðgerður hjá mér, blómstrar árvisst og kelur lítið þar sem hann vex á lóðarmörkum í þokkalegu, en ekki algjöru, skjóli.
Viburnum lantana content media
0
0
13
Rannveig
14. maí 2022
In Tré og Runnar
Japanskvistur 'Golden Princess' er dvergvaxið afbrigði af japanskvisti með gulgrænu laufi sem er rauðgult í fyrstu. Hann blómstrar dökkbleikum blómum í ágúst - september. Haustlitirnir eru rauðir. Þetta er smávaxið yrki sem nær varla meira en hálfum meter á hæð. Hann kelur yfirleitt eitthvað, mismikið eftir vetrum, svo það þarf að snyrta hann til á vorin. Hann blómstrar á nývöxt, svo klipping kemur ekki niður á blómgun. Hann þarf sólríkan vaxtarstað til að blómstra vel.
Spiraea japonica 'Golden Princess' content media
0
0
12
Rannveig
01. maí 2022
In Tré og Runnar
Þokkasýrena 'Julia' er finnskt yrki af þokkasýrenu sem verður um 3-4 m á hæð. Það blómstrar bleikum blómum í júlí. Þrífst við sömu skilyrði og aðrar sýrenur, sól eða hálfskugga í þokkalega vel framræstum, frjóum jarðvegi.
Syringa x henryi 'Julia' content media
0
0
7
Rannveig
01. maí 2022
In Tré og Runnar
Japanskvistur 'Little Princess' er dvergvaxið afbrigði af japanskvisti sem blómstrar bleikum blómum og fær rauða haustliti. Því hættir við kali ef skjólið er takmarkað, en það kemur ekki að mikilli sök, því runninn blómstrar á nývöxt. Hann þrífst best í sól eða hálfskugga í vel framræstum, frjóum jarðvegi.
Spiraea japonica 'Little Princess' content media
0
0
8
Rannveig
01. maí 2022
In Tré og Runnar
Silfurblað Silfurblað er fíngerður runni sem getur náð 1 - 1,5 m á hæð. Laufið er silfrað og blómin mjög smá, gul og lítið áberandi. Silfraða laufið er því aðal stáss plöntunnar. Það þrífst best í sól og vel framræstum, sendnum jarðvegi. Það þrífst vel í þokkalega góðu skjóli.
Elaeagnus commutata 'Skíma' content media
0
0
9
Rannveig
30. apr. 2022
In Tré og Runnar
Dvergheiðakvistur Dvergheiðakvistur er dvergvaxið afbrigði af birkikvisti sem blómsrar hvítum blómum sem opnast frá bleikum knúppum. Hann fær gullgula haustliti. Hann þrífst ljómandi vel hjá mér þar sem hann vex í brekku sem vísar í NV. Hann fær einhverja sól part úr degi og þó hann sé ekki á berangri þá getur norðanáttin alveg blásið hressilega á hann. Hann hefur ekki kalið mikið þrátt fyrir það. Er ekki mikið meira en 30 cm á hæð og breiðir meira úr sér á þverveginn en upp á við. Virkilega flottur.
Spiraea betulifolia ssp. aemiliana content media
0
0
10
Rannveig
30. apr. 2022
In Tré og Runnar
Þófasnepla Þófasnepla er sígrænn dvergrunni sem á heimkynni á Nýja Sjálandi eins og allar aðrar tegundir ættkvíslarinnar. Laufið er grágrænt og hún blómstrar hvítum blómum í júlí - ágúst. Ég keypti þessa plöntu að hausti eitthvert árið snemma á þessari öld og hún var bara merkt sem Hebe. Ég hef mikið leitað á netinu til að reyna að finna hvaða tegund þetta gæti verið og það eru fleiri en sem líkjast henni. Ég rakst á plöntur í Þöll 2019 sem líkjast mjög minni plöntu, svo ég ætla að giska á að hún sé þófasnepla, þar til annað kemur í ljós. Ég var búin að eiga hana í mörg ár áður en hún tók upp á því að blómstra og var bara sátt við að hún væri þessi grágræna kúla sem hún var. Ekki skemmdu þó blómin fyrir og ekki nóg með það, hún þroskar fræ og hefur sáð sér aðeins. Ekki þó þannig að hún sé til vandræða. Hún vex sunnan megin við húsið, svo hún fær töluverða sól, sem á líklega sinn þátt í því að hún tók upp á því að fara að blómstra. Hún er líka í þokkalegu skjóli og við þau skilyrði þrífst hún afar vel.
Hebe topiaria content media
0
0
6
Rannveig
30. apr. 2022
In Tré og Runnar
Rósakirsi (Kúrileyjakirsi) 'Ruby' er afbrigði af rósakirsi sem blómstrar ljósbleikum blómum fyrir laufgun í lok apríl - maí. Aldinin eru smá og svört, en yfirleitt þroskast nánast ekkert af aldinum. Það þrífst best í sól eða hálfskugga í þokkalega góðu skjóli. Kjöraðstæður eru vel framræstur, frjór jarðvegur. Þrífst mjög vel og blómstrar árvisst, þó fjöldi blóma sé misjafn eftir árferði.
Prunus kurliensis 'Ruby' content media
0
0
13
Rannveig
30. apr. 2022
In Tré og Runnar
Kasmírreynir Kasmírreynir er smávaxið tré sem getur verið ein- eða margstofna. Það blómstrar fölbleikum blómum í júní og þroskar hvít ber. Haustlitirnir eru gulir og bronslitir. Það er harðgert og blómstrar árvisst, en blómgun getur verið mismikil eftir árferði. Það vex hjá mér óvarið fyrir norðanáttinni og kelur lítið.
Sorbus cashmiriana content media
0
0
13
Rannveig
29. apr. 2022
In Tré og Runnar
Rósastjörnutoppur 'Mont Rose' er afbrigði af stjörnutoppi sem blómstrar bleikum blómum í júlí - ágúst. Hann þarf sólríkan vaxtarstað í þokkalega góðu skjóli fyrir norðanáttinni. Blómstar yfirleitt eitthvað á höfuðborgarsvæðinu, mismikið eftir árferði. Samkvæmt vefsíðu Lystigarðs Akureyrar á hann aðeins erfiðara uppdráttar þar, getur kalið töluvert og blómgun því ekki árviss.
Deutzia x hybrida 'Mont Rose' content media
0
0
10
Rannveig
29. apr. 2022
In Tré og Runnar
Sýrena 'Bríet' er stórvaxin sýrenusort sem getur náð allt að 5 m hæð við góð skilyrði ef hún er ekkert klippt. Hún blómstrar ljósbleikum blómum, sem opnast úr bleikum knúppum með smá laxableikum blæ. Blómstönglarnir eru mjög dökkir sem er flottur kontrast við ljós blómin. Álíka harðgerð og aðrar sýrenur. Þrífst best í sól eða hálfskugga í vel framræstum, frjóum jarðvegi.
Syringa sp. 'Bríet' content media
0
0
20

Rannveig

Admin
More actions
bottom of page