Brotnar trjágreinar
- Rannveig

- Apr 14, 2024
- 2 min read
Updated: Nov 2, 2025
Blautur snjór er þungur og getur valdið töluverðum skaða á trjágróðri, sérstaklega snjóhengjur sem falla sem snjóflóð ofan af þaki. Við uppgötvuðum þennan vanda hjá okkur annan veturinn eftir að við fluttum í núverandi hús, þá nýbúin að mála hús og þak og skipta um rennur um sumarið. Hefði þetta uppgötvast fyrsta veturinn hefðum við sett kant á þakið til að varna því að snjórinn húrrist svona niður af þakinu, en því miður virðist sá vetur hafa verið með eindæmum snjóléttur. Ég gróðursetti tré og runna í beð við SV-hlið hússins, m.a. tvö kirsuberjatré og töfratré, sem höfðu að mestu sloppið við skemmdir þangað til í janúar 2023. Þá féll mikið magn af blautum snjó beint niður í beðið og olli töluverðum skemmdum. Ein stór grein brotnaði af öðru kirsuberjatrénu og rúmlega fimmtán ára gamalt töfratré mölbrotnaði.

