top of page
Search

Brotnar trjágreinar

Blautur snjór er þungur og getur valdið töluverðum skaða á trjágróðri, sérstaklega snjóhengjur sem falla sem snjóflóð ofan af þaki. Við uppgötvuðum þennan vanda hjá okkur annan veturinn eftir að við fluttum í núverandi hús, þá nýbúin að mála hús og þak og skipta um rennur um sumarið. Hefði þetta uppgötvast fyrsta veturinn hefðum við sett kant á þakið til að varna því að snjórinn húrrist svona niður af þakinu, en því miður virðist sá vetur hafa verið með eindæmum snjóléttur. Ég gróðursetti tré og runna í beð við SV-hlið hússins, m.a. tvö kirsuberjatré og töfratré, sem höfðu að mestu sloppið við skemmdir þangað til í janúar 2023. Þá féll mikið magn af blautum snjó beint niður í beðið og olli töluverðum skemmdum. Ein stór grein brotnaði af öðru kirsuberjatrénu og rúmlega fimmtán ára gamalt töfratré mölbrotnaði.Broken branches of Daphne mezereum
Töfratréð (Daphne mezerum) brotið í spað


Það leið a.m.k. vika frá því að snjórinn féll niður og þangað til ég tók eftir skemmdunum, en þrátt fyrir það ákvað ég að reyna að bjarga töfratrénu frá því að vera klippt nánast alveg niður. Ég reyrði því brotnu greinarnar saman eins og ég gat með plastbandi sem ég átti til og vonaði það besta. Furðu margar greinar sýndu lífsmark um vorið og nú, rúmlega ári síðar, er útlit fyrir að það hafi bara tvær greinar tapast alveg.


Það er því vel þess virði að byrja á því að reyna að tjasla saman brotnum greinum áður en þær eru klipptar burt, að því gefnu að:

  1. Þær hafi ekki brotnað alveg af, hluti af greininni þarf að vera tengdur við "æðakerfi" plöntunnar

  2. Það er ekki of langt um liðið frá því þær brotunuðu - sárið þarf að vera nýtt til að vaxtarvefurinn sé enn virkur
Það er mikilvægt að velja mjúkt efni sem særir ekki börkinn, eins og t.d. plastböndin sem ég notaði. Í sumum tilvikum t.d. ef brotið er framarlega á grein, virkar örugglega best að nota ágræðsluteygju eða eitthvað sambærilegt. Það er mjög mikilvægt að brotin séu reyrð þétt saman til að þau grói sem best. Loftrými getur skapað veika bletti sem sýkingar geta komist í, eða valdið endurteknu broti. En þó að það sé ekki allt eins og best væri á kosið, tapar maður samt engu á því að prófa - því í versta falli grær brotið ekki og þá er maður í sömu sporum og í uppafi og þarf að klippa greinarnar af.

12 views0 comments

Recent Posts

See All

コメント


bottom of page