Feb 17, 2018

Edraianthus pumilio - Dvergbikar

2 comments

 

Ég er með veikan blett fyrir svona þúfumyndandi fjallaplöntum með blóm sem rétt ná upp úr laufinu. Dvergbikar er einn af þeim. Við góðskilyrði verður hann þakinn fjólubláum klukkublómum í kringum mánaðarmótin júní-júlí. Hann þarf mjög gott frárennsli og hér fyrir sunnan þar sem rignir fram úr hófi yfir vetrarmánuðina á hann besta möguleika á að dafna í góðum halla þar sem vatn rennur vel frá. Mér hefur reynst vel að rækta fjallaplönturnar í grófum sandi sem er um 20-30% mold. Yfirborðið má svo gjarnan vera fín möl. Þessi þarf að sjálfsögðu sólríkan stað.

Feb 17, 2018

Dvergabikar sýnist mér vera afar fallegt blóm. Velti fyrir mér hvort hann gæti kunnað við sig utan i frekar þurrum hól i Jarphaga ef hann fengi gróðurvörn í kring😄?

Gæti alveg verið. Mín reynsla er sú að þessar fjallaplöntur sem kunna illa við vetrarbleytu eiga besta möguleika á að þrífast hérna fyrir sunnan í góðum halla. Hann drapst hjá mér, enda var hann á jafnsléttu í upphækuðu beði, en hann lifði þó í nokkur ár. Ævintýralega fallegur í blóma.

New Posts
  • Mjög fallegt afbrigði af garðavatnsbera með gulum blómum með löngum útsveigðum sporum. Hann hefur reynst mjög blómsæll og stendur lengi í blóma. Því miður hef ég ekkert yrkisnafn. Planta frá Möggu.
  • Þetta er sjálfsáður blendingur sem birtist í garðinum mínum, sem er greinilega afkomandi skógarvatnsbera afbrigðisins 'Magpie'. Blómliturinn er sá sami, en blómin eru stærri, jafn stór og á garðavatnsberum, svo hitt foreldrið er líklega af þeim meiði. Sporarnir eru innsveigðir eins og á skógarvatnsbera. Mér finnst þessi fallegri en frumgerðin og hann er jafn harðgerður og aðrir vatnsberar.
  • 'Crimson Star' er fallegt garðaafbrigði með rauðum og kremhvítum blómum, með löngum sporum. Ég keypti þennan í pakka frá Costco 2018 og hann blómstraði í fyrsta sinn núna í sumar. Vatnsberar eru nokkuð skuggþolnir, en þeir þrífast og blómstra betur í sól eða hálfskugga. Einu jarðvegskröfurnar eru að jarðvegurinn sé vel framræstur, en betra er að hann sé frekar frjór líka. Mér fannst vissara að bjóða svona fínni sort upp á bestu skilyrði svo hann lifi nú sem lengst.

gardaflora@gardaflora.is    I     © 2015-2019  Garðaflóra.

  • Facebook App Icon