Ígulrósarblendingur (Hybrid Rugosa)
'Sointu' er finnskur ígulrósarblendingur sem var ræktuð af Peter Joy, Pirkko Kahila og Matti Kangaspunta við Háskólann í Helsinki 1994. Móðurplantan er 'Schneekoppe', en frjógjafinn er smá ráðgáta. Samkvæmt Pirkko Kahila var frjógjafinn polyantha rós, kölluð Angel Rose, sem er þekkt í Finnlandi sem sumarblóm ræktuð af fræi, en ætterni og uppruni þeirrar rósar er óþekkt. Á helpmefind.com er sú kenning sett fram að þessi rós sé Rosa multiflora var. nana. Hver sem frjógjafinn var, þá var sú rós með frekar smáum blómum í klösum og erfði 'Sointu' þann eiginleika. Blómin eru smá miðað við aðra ígulrósarblendinga, eins og sést á myndinni hér að ofan, eru þau minni en blóm hádegisblóma. Þau eru hálffyllt og eru ljósbleik í fyrstu en liturinn fölnar svo og verður nánast hvítur. Hún blómstrar bæði á gamlar greinar og nývöxt og á því að vera síblómstrandi. Ég keypti hana vorið 2020 og blómstraði hún lítllega í fyrra sumar, en það á eftir að koma meiri reynsla á hana.