Ætli sé ekki best að byrja á að lýsa garðinum.
Í eldri hluta Selfossbæjar stendur 700 fm garður umhverfis íbúðarhús við gatnamót á mikilli umferðargötu.
Garðurinn var mjög klassískur þegar fjölskyldan mín keypti húsið um síðustu aldamót



. Reynir og Birki standa í hverju horni og þess á milli víðihekk við lóðarmörk. Einhverntímann bauð bærinn líklega uppá að plægja bakgarða íbúa fyrir grænmetisræktun en þó virðist rabarbarinn hafa verið aðal ræktunin hér.
Fimm aspir standa á miðri graslóðinni til að skýla fyrir sunnanáttinni að húsinu.
Uppvið íbúðarhúsið stendur sólskáli og steinabeð fyrir utan það. Í því voru aðallega sumarblóm sett í árlega nema tvíæringarnir Stúdentanellika og Fingurbjargarblóm sem færa sig til í beðinu. Sólblóm stækkuðu vel á þessum skjólgóða stað og voru í uppáhaldi hjá mömmu að sjá þau vaxa jafnvel uppfyrir glugga gróðurhússins.
Fyrir aftan var pabbi með safnhaugsgerð í stórum stíl. Fjölæringarnir eru ekki sérlega margir og þó; Silfursóley, Gullhnappur, Eldlilja, Venusvagn, Graslaukur, Burnirót, Burkni og Lyklar.
21 árs byrjaði ég í garðhönnunarnámi á Hvanneyri og byrjaði jafnfljótt að skipta mér að því sem gerðist í uppeldisgarði mínum en í raun garður foreldra minnar því ég var flutt að heiman. Það var svo þegar ég útskrifaðist þrem árum síðar sem ég fæ að nýta garðinn þeirra undir allar mínar hugmyndir. Þá var ég líka svo heppin að hafa heimilismenn sem vildu hjálpa til undir minni leiðsögn.
Víðihekkin voru farin að segja sitt síðasta og fyrst var syðri hliðin tekin í gegn og sett glótopp í staðinn.
Árið 2016 vildi ég brjóta upp þennan gamla stíl og sleppa hekki á vesturhliðinni. Nú voru fjölæringarnir orðnir mér mikilvægastir svo hekkið mátti fjúka fyrir heila lengju af hávöxnum og hörðum fjölæringum með stöku runnum.
Á sumrin vann ég í gróðrastöðvum og geri það nú allt árið - því fá ýmsar plöntur að fylgja mér heim til foreldra minna og byrja þá oftast í steinabeðinu uppvið sólskálann. Þar fá fjölæringarnir að spreyta sig og sýna mér hvernig þeir vilja haga sér. Ef þeir spretta upp úr öllu valdi set ég þá í langa hekkbeðið. Ef þeir liggja í grúfu og þorna upp fara þeir undir koparreyni í skugga og gott skjól.
Mikið er garðaspjall góð hugmynd og ég varð að taka þátt. Það er svo undursamlegt að stússast í garðinum svo ekki sé minnst á þann möguleika að monta sig örlítið yfir verkum sínum.
Sæl Embla - gaman að sjá þig hér :) Lýsingin á garði foreldra þinna hljómar mjög svipuð garðinum sem ég átti síðast. Hann var í Norðurbænum í Hafnarfirði, sem byggðist upp í kringum 1975. Þar var húsið í miðjunni og álíka breiðar ræmur allan hringinn, rammað inn af hekki á tvo vegu. Á suðurhliðinni hafði verið asparhekk sem búið var að fjarlægja þegar við fluttum í húsið. Ég fjarlægði svo hekk af brekkuvíði sem óx meðfram vesturhliðinni og gróðursetti blandað runnabeð í staðinn. Svo voru fjölæringabeð þar fyrir innan. Það verður gaman að fá að fylgjast með tilraunum þínum í garðinum :)
Sæl Embla og velkomin í okkar litla hóp. Ég hef fylgst aðeins með skrifum þínum um fjölæringa og mér finnst þau mjög áhugaverð. Skemmtileg og áhugaverð sagan af foreldragarðinum þínum hér fyrir ofan. Ég ólst upp í stórfjölskylduhúsi með fallegum garði sem faðir minn hannaði og annaðist En mörg ár liðu þar til ég eignaðist minn eigin garð. Núna á ég ekki lengur heimilisgarð en í staðinn á ég stórt sumarbústaðaland nálægt Árnesi í Skeiða- og Gnúpverjahreppi þar sem ég uni mér vel við holugröft og plöntun trjáa og fjölæringa og nú undanfarið einnig rósa.
Takk fyrir, gaman að fá að vera með í þessu! Fjölskyldan á einmitt líka bústaðarsvæði í Skeiða- og Gnúpverjahreppi þar sem trén fá að njóta sín og hef ég þá afsökun fyrir að hafa enn færri tré í heimagarðinum og hafa þau fleiri í sveitinni þar sem nóg er um pláss. Svona skipulag hentar mér mjög vel að sitja ekki ein í púlinu því auðvitað er garðvinna frábær fyrir alla sérstaklega ef henni er deilt samviskusamlega.
Mér sýnist þetta vera alveg fyrirtaks fyrirkomulag hjá ykkur. 👍 Það er allt of mikið af trjám í garðinum mínum.
Ef þú hefur gott skjól í Foreldragarðinum þá skil ég að þú viljir gefa fjölæringunum þínum meira pláss. Þetta er mjög spennandi hjá þér. Ég á oft leið um Selfoss sem er ört vaxandi bær, og reyndar munaði ekki miklu að ég flytti þangað þegar við minnkuðum við okkur. Skemmtileg tilviljun að foreldrar þínir skuli vera með land í sama sveitarfélagi og minn bústaður sem heitir Jarphagi. Ég sá að þú varst með fyrirlestur í Garðyrkjufélaginu á Selfossi, og það væri gaman ef þú kæmir með fyrirlesturinn til G.Í. Í Reykjavík.