Jan 21

Klasarósin 'Schneewittchen'

0 comments

 

'Schneewittchen' er eina klasarósin (Floribunda) sem lifði flutninginn af. Klasarósir eru álíka harðgerðar og terósablendingarnir og þurfa besta stað í garðinum og dekurmeðferð. Sól, skjól, næringarríkur jarðvegur, vetrarskýli eru nauðsyn og vorskýli í maí eykur líkur á góðri blómgun til muna. Ég útbjó skýli úr glærum plastpokum undan vikri til að hvolfa yfir dekurrósirnar í byrjun maí, klippti raufar í hiðarnar og hornin af til að fá loftun og þræddi pokana upp á bambusprik. Þetta gafst mjög vel og flýtti blómgun jafnvel um mánuð og það munar um minna í okkar stuttu sumrum. Nú er ég með akrýldúk yfir dekurrósabeðinu yfir veturinn og fram í lok maí, svo hann þjónar bæði hlutverki vetrarskýlis og vermiskýlis í maí. Platan mín er nú í dekurrósabeðinu og er öll að koma til, blómstraði bæði sumarið 2017 og 2018.

 

 

New Posts
  • Hvað segið þið um rósapöntunarlistann - ætlar einhver að panta? Ég er í miklum vanda stödd - það eru svo margar rósir sem mig langar að prófa. Ég er alveg ákveðin að panta: 'Peter Boyd' 'Prairie Magic' Svo er vandinn að velja á milli þessara: 'Absolutely Fabulous' (Julia Child) - mér finnst nafnið á þessari svolítið heillandi, fyrir utan hvað hún er falleg. Zone 5b 'Blanche de Belgique' - fannst þessi áhugaverð því hún er sögð zone 3b, en svo fletti ég upp 'Maiden's Blush' og 'Alba Maxima' og þær eru það líka. Svo ég er ekki viss með hana, svo margt annað sem mig langar í. 'Kordes Robusta' - þessi á að vera zone 4b, mér finnst hún svolítið heillandi, en hrædd um að hún þyrfti að vera sunnan megin þar sem plássið er takmarkað. Svo á ég 'Champlain' (vonandi) og hún er zone 4a. 'Mon Amie Claire' - síblómstrandi þyrnirósarblendingur. Hún er sögð zone 4 (-34°C), blómin eiga að vera regnþolin og mikið ilmandi. Þetta hljómar allt saman afskaplega vel. ' Sachalin ' - ígulrósarblendingur, blómin eru heillandi formfögur og falleg á litinn. En hún er sögð zone 6 (-24°C), sem vekur efasemdir um að hún gæti gert eitthvað á norðurhliðinni. Hún þarf líklegast gott skjól. ' Brenda Colvin ' - klifurrós(flækjurós), spurning hvað hún getur gert hér. Reynsla Vilhjálms er athyglisverð og vekur löngun til að prófa. Hún er zone 6 (-24°C). Svo hún er líklegast að keppa um pláss sunnan megin. ('Maigold' er sögð zone 5-6 eftir heimildum, hún hefur reynst vel hjá mér, en þarf að vera við suðurvegginn). Hún lifði í geymslubeðinu hinu megin, en blómstraði ekki. 'Paul's Scarlet Climber' - klifurrós (flækjurós), sögð zone 6b. 'Flammentanz' er zone 5 og þarf suðurvegginn, svo það sama gildir örugglega um þessa. Líklegt að hún verði settleg beðrós hér. ' Graham Thomas ' - ég er að spá hvort ég eigi að gefa Austin rósunum annan séns. Hef verið mjög óheppin með þær sem ég hef prófað. Þessi er zone 5b eins og 'Absolutely Fabulous' og gul eins og hún. 'Jude the Obscure' - önnur Austin rós, þessi er meira út í ferskjubleikt. Líka zone 5b. 'Kew Gardens' - Austin rós og moskusrósarblendingur. Zone 5. Mér finnst eitthvað heillandi við þessa rós. 'Princess Alexandra of Kent ' - Austin rós sem á að vera zone 4. Á að ilma mikið og blómliturinn er æðislegur. Minnir mig á 'Aloha' sem ég átti í gamla garðinum og átti mjög erfitt uppdráttar. ' Sceptre'd Isle' - Austin rós sem á líka að vera zone 4. Og sögð þola kulda og regn. Það er kostur. 'Olds College' - Kanadísk rós sem á að vera zone 3. Mjög freistandi. Semsagt mikill valkvíði í gangi hér.
  • Pólstjarnan er mjög stórvaxin klifurrós sem getur náð nokkurra metra hæð. Hún er nokkuð harðgerð, en þarf þó skjól fyrir norðanáttinni. Blómin eru lítil, hálffyllt, allmörg saman í klasa. Hún er ein af fáum klifurrósum sem eru nógu harðgerðar til að vaxa á rósaboga.
  • ' Buff Beauty ' er moskusrósarblendingur sem er nokkuð frábrugðinn öðrum rósum í þeim flokki, sem ég hef prófað. Þær hafa allar lítil blóm í margblóma klösum, einföld eða fyllt, en blómin á 'Buff Beauty' eru töluvert stærri. Þau eru óskaplega falleg á litinn, knúpparnir eru dökk ferskjubleikir og blómin lýsast eftir því sem þau eldast og verða að lokum rjómahvít. Hún er viðkvæm og þarf mjög góðan stað til að ná að blómstra og vetrarskýli. Hún blómstraði mjög vel sumarið 2008, sem var með eindæmum hlýtt og sólríkt, hér á suðvestur horninu a.m.k. og sýndi þá hversu stórkostlega falleg hún er. Hún drapst á fyrsta vetri eftir flutning.

gardaflora@gardaflora.is    I     © 2015-2019  Garðaflóra.

  • Facebook App Icon