Barrtré þola mörg hver meiri þurrk og kulda en lauftré því  laufblöðin, barrið, hafa lítið yfirborðsflatarmál og í sumum tilvikum eru þau vaxborin, til að koma í veg fyrir vökvatap. Þau eru í flestum tilvikum sígræn, þ.e. fella ekki barrið á veturna. Barrskógarbeltið tekur við af laufskógarbeltinu á norðurhveli og teygir sig langt norður að freðmýrum norðurheimskautsins.

Abies - Þinur
 

Ættkvíslin Abies tilheyrir þallarætt, Pinaceae. Þetta eru stórvaxin tré, með heimkynni í fjalllendi  víða á norðurhveli jarðar. Helsta einkenni ættkvíslarinnar er mjúkt barr sem vísar upp frá greinunum. Þinir eru skuggþolnir og nægjusamir. Flestar tegundir vaxa á stöðum þar sem meginlandsloftslag er ríkjandi og því geta vetrarumhleypingar valdið skemmdum á nýjum sprotum.

​​​​​​

  • Abies concolor - hvítþinur

  • Abies lasiocarpa - fjallaþinur

    • var. arizonica - korkfjallaþinur​

Chamaecyparis - Sýprus
 

Ættkvíslin Chamaecyparis tilheyrir grátviðarætt, Cupressaceae. Ættkvíslin telur sjö tegundir með heimkynni í austur Asíu og vestanverðri N-Ameríku. Tegundir ættkvíslarinnar vaxa í skuggsælum strandskógum þar sem úrkoma er mikil. Þær þurfa því gott skjól og jafnan jarðraka.

​​​​​​

  • Chamaecyparis lawsoniana - fagursýprus

  • Chamaecyparis nootkatensis - ​alaskasýprus

Juniperus - Einir
 

Ættkvíslin Juniperus, einir, er ættkvísl um 60 tegunda í grátviðarætt, Cupressaceae sem dreifast um allt norðurhvel jarðar. Þetta eru hægvaxta, vindþolnir runnar eða tré sem þola þurran, rýran jarðveg og kjósa sólríkan stað.

​​​​​

Larix - Lerki
 

Ættkvíslin Larix, lerki, tilheyrir þallarætt, Pinaceae, og telur 10 tegundir sem vaxa flestar við meginlandsloftslag. Þær hafa mjúkar nálar sem falla á haustin.

​​​​

Picea - Greni
 

Ættkvíslin Picea, greni, er ættkvísl um 35 tegunda í þallarætt, Pinaceae. Þetta eru stórvaxin tré með heimkynni dreifð um barrskógabeltið á norðurhveli jarðar. 

​​​​​​

Pinus - Fura
 

Ættkvíslin Pinus, fura, er stór ættkvísl í þallarætt sem telur rúmlega 100 tegundir. Heimkynni þeirra eru dreifð um norðurhvel jarðar. Einkenni ættkvíslarinnar eru langar nálar sem vaxa í knippum, oftast 2-5 nálar í knippi. 

​​​​​​​​

Taxus - Ýviður
 

Taxus, ýviðir, er lítil ættkvísl í ýviðarætt, Taxaceae. Allar tegundir ættkvíslarinnar eru náskyldar og sumir grasafræðingar vilja skilgreina þær allar sem undirtegundir af ýviði, Taxus baccata. Aðrir skilgreina 9 tegundir. Ýviðir hafa flatar, dökkgrænar nálar sem eru mjúkar viðkomu og þroska köngla sem líkjast opnum rauðum berjum sem umlykja eitt fræ. Allir hlutar eru eitraðir að berjunum undanskildum, þar með talin fræin. Nokkur krabbameinslyf hafa verið þróuð út frá taxane eiturefnunum sem finnast í ýviðartegundum. Viðurinn er sveigjanlegur og var notaður í bogagerð.

​​​​​​​​​​​

Thuja - Lífviður
 

Ættkvíslin Thuja, lífviðir, er lítil ættkvísl 5 tegunda í grátviðarætt, Cupressaceae, með heimkynni í Asíu og N-Ameríku. Þetta eru sígrænir runnar eða tré með hreisturkenndu laufi á flötum greinum.

​​​​​​​​​​

  • Thuja koraiensis - kóreulífviður

Thujopsis
 

Ættkvíslin Thujopsis​, vaxlífviður, er náskyld lífviðum en er öll grófgerðari. Aðeins ein tegund tilheyrir ættkvíslinni og er hún upprunnin í Japan.

​​​​​​​​​​

Tsuga - Þöll
 

Ættkvíslin Tsuga, þallir, tilheyrir þallarætt, Pinaceae og telur um 10 tegundir með heimkynni í N-Ameríku og Asíu. Þallir hafa stutt, mjúkt barr og slútandi toppsprota. Þær eru nokkuð skuggþolnar.

​​​​​​​​​​

  • Tsuga heterophylla - marþöll

gardaflora@gardaflora.is    I     © 2015-2019  Garðaflóra.

  • Facebook App Icon