top of page
Marble Surface

D

Delphinium 'Afi'
Delphinium - Riddarasporar
 

Riddarasporar, Delphinium, er fjölskúðug ættkvísl í sóleyjaætt, Ranunculaceae, með um 300 tegundum. Flestar eru tignarlegir fjölæringar með heimkynni um norðanvert tempraða beltið og suður til fjalla Afríku. Mest er ræktað af kynbættum yrkjum í görðum.

 

Dicentra spectabilis
Dicentra - Hjartablóm
 

Hjartablóm, Dicentra, er lítil ættkvísl í draumsóleyjaætt, Papaveraceae, (áður reykjurtaætt) með um 8 tegundum sem vaxa í N-Ameríku og A-Asíu. Þau hafa margskipt, þunn laufblöð og óreglugega löguð blóm sem minna oft á hjarta. Þau vaxa í sól eða hálfskugga í næringarríkri mold. Hjartablóm, Dicentra spectabilis, hefur nýlega verið flutt í sér ættkvísl, Lamprocapnos, en verður áfram haft hér undir sínu gamla heiti.

 

Digitalis purpurea
Digitalis - Fingurbjargarblóm
 

Fingurbjargarblóm, Digitalis, er ættkvísl um 20 tegunda sem áður var flokkuð í grímublómaætt en hefur nú verið færð undir græðisúruætt, Plantaginaceae.  Þetta eru nokkuð hávaxnar plöntur með laufblaðahvirfingu og fingurbjargarlaga blóm í háum klösum. Þær eru mjög eitraðar. Heimkynni ættkvíslarinnar eru í V- og SV-Evrópu, V- og Mið-Asíu, Eyjaálfu og NV-Afríku.

 

Dodecatheon poeticum
Dodecatheon - Goðalyklar
 

Goðalyklar, Dodecatheon, er lítil, einsleit ættkvísl í maríulykilsætt, Primulaceae, náskyld maríulyklum, Primula. Tegundirnar eru hver annari líkar og oft mjög erfitt að greina á milli þeirra. Allar eiga þær heimkynni í N-Ameríku og einhverjar einnig í NA-Asíu. Goðalyklar hafa laufblaðahvirfingu við jörð, með klasa af blómum á blaðlausum stilk sem hafa einkennandi aftursveigð krónublöð. Þeir þurfa rakan, næringarríkan jarðveg og þrífast í nokkrum skugga.

 

Douglasia laevigata
Douglasia - Feldir
 

Douglasia, feldir, er lítil ættkvísl háfjallaplantna í maríulykilsætt, Primulaceae, náksyldum berglyklum, Androsace. Þær eiga heimkynni í NV-Ameríku og NA-Asíu og eins og aðrar háfjallplöntur kunna þær best við sig í grýttum jarðvegi á sólríkum stað.

 

Dracocephalum tanguticum
Dracocephalum - Drekakollar
 

Drekakollar, Dracocephalum, er ættkvísl um 60-70 tegunda í varablómaætt, Lamiaceae, sem flestar eiga heimkynni í Mið-Evrópu og N-Asíu. Þær tegundir sem helst eru ræktaðar hér þrífast best í frekar þurrum, rýrum jarðvegi á sólríkum stað.

 

Marble Surface
bottom of page