top of page
Marble Surface

L

Lamium maculatum 'Eva'
Lamium - Tvítennur
 

Tvítennur, Lamium, er ættkvísl um 50 tegunda í varablómaætt, Lamiaceae, með heimkynni í Evrópu, Asíu og Afríku. Þær eru margar skriðular og skuggþolnar og því góðar þekjuplöntur á skuggsælum stöðum.

 

Lathyrus vernus
Lathyrus - Villiertur
 

Villiertur, Lathyrus, er ættkvísl um 160 tegunda í ertublómaætt, Fabaceae, sem eiga heimkynni í Evrópu, Asíu, A-Afríku og Ameríku. Í ættkvíslinni eru bæði tegundir sem ræktaðar eru sem skrautplöntur og til fæðu.

Leucanthemum maximum 'Silberprinzesschen'
Leucanthemum - Prestafíflar
 

Prestafíflar, Leucanthemum, er ættkvísl tegunda í körfublómaætt, Asteraceae, með mesta útbreiðslu um Mið- og Suður-Evrópu.

 

Leuzea rhaponica
Leuzea - Kúlukornblóm
 

Kúlukornblóm, Leuzea, er lítil ættkvísl í körfublómaætt, Asteraceae, sem líkist mjög kornblómum. Viðurkennt fræðiheiti hennar er nú Rhaponticum.

 

Lewisia tweedy
Lewisia - Fjallablöðkur
 

Fjallablöðkur, Lewisia, er lítil ættkvísl 19 tegunda sem áður tilheyrðu grýtublómaætt, en eru nú flokkaðar í ættina Montiaceae. Þetta eru háfjallaplöntur sem allar vaxa í norðurhlíðum fjalla í vestanverðri N-Ameríku.

 

Ligularia przewalskii
Ligularia - Skildir
 

Skildir, Ligularia, er ættkvísl rúmlega 120 tegunda í körfublómaætt, Asteraceae. Flestar tegundir vaxa um Mið- og Austur-Asíu en einhverjar í Evrópu. Þetta eru almennt mjög stórvaxnar plöntur með hvirfingu stórgerðra laufblaða og gulum körfum í löngum klösum. Margar vaxa við ár og vötn í heimkynnum sínum og kjósa því rakan, frjósaman jarðveg.

 

Lilium 'Lemon Stardust'
Lilium - Liljur
 

Liljur, Lilium, er stór ættkvísl í liljuætt, Liliaceae, sem vex um nyrðra tempraða beltið, flestar í Asíu og N-Ameríku, en nokkrar í Evrópu. Þetta eru yfirleitt hávaxnar plöntur með stórum, litsterkum blómum í öllum litum regnabogans að bláum undanskildum. Mikill fjöldi yrkja er ræktaður í görðum.

 

Linaria alpina
Linaria - Dýragin
 

Dýragin, Linaria, er ættkvísl um 150 tegunda sem áður voru flokkaðar í grímublómaætt, Scrophulariaceae, en tilheyra nú græðisúruætt, Plantaginaceae. Útbreiðsla þeirra er um tempruð belti Evrópu, Asíu og N-Afríku, flestar tegundir í kringum Miðjarðarhafið.

 

Linum perenne ssp. alpinum
Linum - Alpalín
 

Alpalín, Linum, er ættkvísl um 200 tegunda í línætt, Linaceae. Hör tilheyrir ættkvíslinni en það er mikilvæg nytjaplanta sem línolía og hörþræðir eru unnin úr. Hún er ræktuð víða, en vex hvergi villt. Alpalín þurfa sólríkan vaxtarstað.

 

Lithophragma parviflora
Lithophragma
 

Lithophragma er lítil ættkvísl 9 tegunda í steinbrjótsætt, Saxifragaceae. Þetta eru skógarplöntur sem allar vaxa í vesturhluta N-Ameríku og kallast á ensku "woodland star" eða skógarstjarna og er nafnið dregið af stjörnulaga blómum ættkvíslarinnar.

 

Lotus corniculatus
Lotus - Maríuskór
 

Maríuskór, Lotus, er ættkvísl yfir 100 tegunda í ertublómaætt, Fabaceae, sem eiga heimkynni víða um heim frá ströndum til fjalla. Flestar tegundir hafa gul blóm, en appelsínugulir og rauðir litir þekkjast einnig innan ættkvíslarinnar. Þær eru niturbindandi eins og margar tegundir ertublómaættar.

 

Purple flowers of Lunaria annua
Lunaria - Mánasjóðir
 

Mánasjóðir, Lunaria, er lítil ættkvísl 4 tegunda í krossblómaætt, Brassicaceae. Þær blómstra purpurarauðum eða hvítum blómum og þroska fræ í þunnum, rúnnuðum skálpum sem eru vinsælir í þurrskreytingar. 

 

Lupinus 'Olson's Röde Flamme'
Lupinus - Úlfabaunir
 

Ættkvíslin Lupinus, úlfabaunir, tilheyrir ertublómaætt, Fabaceae. Þetta er stór ættkvísl um 300 tegunda með heimkynni í N- og S-Ameríku. Smærri útbreiðslusvæði er einnig að finna í kringum Miðjarðarhafið. Þær eru niturbindandi og geta því margar vaxið í þurrum, rýrum jarðvegi.

 

Lychnis viscaria 'Purpurea'
Lychnis - Rauðhettur
 

Rauðhettur, Lychnis, er lítil ættkvísl í hjartagrasaætt, Caryophyllaceae, með heimkynni í Evrasíu og N-Afríku. Tegundir ættkvíslarinnar eru náskyldar hjartagrösum, Silene, en eitt einkenni sem skilur á milli ættkvíslanna er að rauðhettur hafa klístraða blómstöngla. Blómin eru nokkuð stór og oft í sterkum rauðum eða rauðbleikum litum. 

 

Lysimachia punctata
Lysimachia - Útlagablóm, skúfar
 

Útlagablóm, Lysimachia, er ættkvísl um 100 tegunda í maríulykilsætt, Primulaceae, með heimkynni í Evrasíu. Flestar tegundir sem vaxa í Evrópu blómstra gulum blómum, en tegundir sem vaxa í Asíu hafa oft hvít blóm. Þær kjósa helst fremur rakan jarðveg.

 

Marble Surface
bottom of page