top of page
Marble Surface

C

Calceolaria biflora
Calceolaria - Frúarskór
 

Ættkvíslin Calceolaria, frúarskór, tilheyrði áður grímublómaætt, Scrophulariaceae, en er nú flokkuð í ættina Calceolariaceae. Þetta eru fremur lágvaxnar plöntur með hvirfingu laufblaða og einkennandi blómum með pokalaga neðri vör. Flestar eiga þær heimkynni í S-Ameríku.

 

Caltha palustris
Caltha - Hófsóleyjar
 

Hófsóleyjar, Caltha, eru eins og nafnið bendir til af ætt sóleyja, Ranunculaceae. Þær vaxa í rökum jarðvegi við læki og tjarnir um kaldtempruðu beltin á norður og suðurhveli jarðar. Ein tegund, hófsóley, vex villt á Íslandi.

 

Catananche caerulea
Catananche
 

Catananche er lítil ættkvísl 5 tegunda í körfublómaætt, Asteraceae, sem vaxa á þurrum engjum Miðjarðarhafssvæðisins.

 

White daisy flower of Celmisia
Celmisia - Selmur
 

Selmur, Celmisia, er ættkvísl jurta og hálfrunna  í körfublómaætt, Asteraceae.  Þær eiga flestar heimkynni á Nýja Sjálandi, en nokkrar í Ástralíu.

 

Magenta cornflower
Centaurea - Kornblóm
 

Kornblóm, Centaurea, er stór ættkvísl um 350 - 600 tegunda  í körfublómaætt, Asteraceae. Tegundir ættkvíslarinnar vaxa eingöngu á norðurhveli, flestar í Miðausturlöndum. Einkenni ættkvíslarinnar eru blómkollar sem samsettir eru úr frjóum pípukrónum í miðju og ófrjóum reifarblöðum í kring. 

 

Cerastium biebersteinii
Cerastium - Fræhyrnur
 

Fræhyrnur, Cerastium, er einsleit ættkvísl um 100 tegunda í hjartagrasaætt, Caryophyllaceae, með heimkynni um allan heim þó flestar vaxi um tempraðabeltið nyrðra. Þær þrífast almennt best á sólríkum stað í þurrum, snauðum jarðvegi.

 

Chelidonium majus
Chelidonium - Svölujurt
 

Svölujurt er eina tegund ættkvíslarinnar Chelidonium í draumsóleyjarætt, Papaveraceae. Hún vex á engjum í Evrópu og V-Asíu og sem ágengur slæðingur í N-Ameríku.

 

Cicerbita alpina
Cicerbita - Bláfíflar
 

Bláfíflar, Cicerbita, er ættkvísl um 20 tegunda í körfublómaætt, Asteraceae. Margar eru fjallaplöntur sem vaxa í skógarjöðrum og rjóðrum í Evrópu og Asíu.

 

Convallaria majalis
Convallaria - Dalalilja
 

Dalalilja er eina tegund ættkvíslarinnar Convallaria sem áður tilheyrði liljuætt, en er nú í aspasætt, Asparagaceae. Hún er skógarplanta sem vex í björtum laufskógum í Evrópu og Asíu.

 

Cortusa matthioli
Cortusa - Bjöllulyklar
 

Bjöllulyklar, Cortusa, er lítil ættkvísl í maríulykilsætt, Primulaceae,  sem líkjast nokkuð maríulyklum. Flestar tegundir eru vorblómstrandi fjallaplöntur sem vaxa í fjöllum S- og A-Evrópu m.a. Ölpunum og Karpatafjöllum, en einhverjar tegundir vaxa í Kína.

 

Corydalis lutea
Corydalis - Fuglalappir
 

Fuglalappir, Corydalis, er stór ættkvísl í draumsóleyjaætt, Papaveraceae (áður í reykjurtaætt),  með yfir 300 tegundum sem flestar eiga heimkynni í Himalajafjöllunum og Kína. Margar eru skógarplöntur sem þrífast best í rökum jarðvegi og skugga part úr degi.

 

Yellow sunflower-like flowers of Cremanthodium
Cremanthodium - Lotkörfur
 

Lotkörfur, Cremanthodium, er ættkvísl um 50 tegunda í körfublómaætt, Asteraceae, með heimkynni í Himalajafjöllum. Þær eiga það sameiginlegt að bera gul, lútandi blóm og er nafn ættkvíslarinnar dregið af því. Þær þurfa allar vel framræstan jarðveg og jafnan jarðraka, en þola illa að standa í vatni yfir vetrarmánuðina.

 

Cyananthus plant with blue flowers growing in a rock garden
Cyananthus - Heiðjurtir
 

Heiðjurtir, Cyananthus, er ættkvísl um 30 tegunda í bláklukkuætt, Campanulaceae, sem allar eiga heimkynni í háfjöllum Mið- og Austur-Asíu, margar í Himalajafjöllum. Þetta eru yfirleitt jarðlægar plöntur með nokkuð stórum blómum sem eru stök á hverjum blómstöngli, oftast blá, en geta líka verið hvít eða gul.

 

Magenta flowers of Cyclamen coum
Cyclamen - Alpafjólur
 

Alpafjólur, Cyclamen, er lítil ættkvísl um 23 tegunda í maríulykilsætt, Primulaceae. Heimkynni þeirra eru í Evrópu og frá botni Miðjarðarhafs austur til Kákasus og Írans. Tegundir ættkvíslarinnar eiga það sameiginlegt að mynda kringlótt hnýði og er nafn ættkvíslarinnar dregið af því. Þær eru allar lágvaxnar, með sígrænu, leðurkenndu laufi sem er oft með silfruðu mynstri og hvítum eða bleikum blómum með aftursveigðum krónublöðum.

Cymbalaria pallida
Cymbalaria - Dýramunnar
 

Cymbalaria, dýramunnar, er ættkvísl sem áður tilheyrði grímublómaætt, Scrophulariaceae, en hefur nú verið flokkuð græðisúruætt, Plantaginaceae. Dýramunnar eru náskyldir dýraginum, Linaria. Þetta eru smávaxnar, skriðular plöntur sem vaxa í V-Evrópu og við Miðjarðarhafið.

 

Marble Surface
bottom of page