top of page
Marble Surface

E

Edraianthus pumilio
Edraianthus - Bikarklukkur
 

Bikarklukkur, Edraianthus, er lítil ættkvísl líkra tegunda í bláklukkuætt, Campanulaceae, sem vaxa í fjöllum Balkanskaga. Þetta eru smávaxnar fjallaplöntur sem mynda þúfur striklaga laufblaða með klukkulaga blómum á stuttum stilkum. Þær kjósa helst að kúra á milli steina þar sem sólin skín og eins og margar aðrar fjallaplöntur kunna þær alls ekki að meta vetrarumhleypinga.

 

Epimedium alpinum
Epimedium - Biskupshúfur
 

Biskupshúfur, Epimedium, er frekar lítil ættkvísl í mítursætt, Berberidaceae. Flestar tegundir eiga heimkynni í Kína. Þetta eru skógarplöntur sem kjósa helst frjóan og rakan jarðveg á skuggsælum stað. Ung laufblöð eru oft litrík og eru ekki síðra skraut en blómin sem ættkvíslin dregur nafn sitt af.

 

Eranthis hyemalis
Eranthis - Vorboðar
 

Eins og nafnið bendir til eru blóm vorboða, Eranthis, með þeim fyrstu sem birtast á vorin. Þetta er lítil ættkvísl um 8 tegunda í sóleyjaætt, Ranunculaceae, með heimkynni í S-Evrópu og austur yfir Asíu til Japans. Þær eru  lágvaxnar skógarbotnsplöntur sem nýta birtuna áður en trén laufgast til að blómgast sínum gulu eða hvítu blómum. Laufið vex eftir blómgun og fölnar þegar skuggsælt er orðið í skógunum.

 

Lilac erigeron flowers
Erigeron - Jakobsfíflar, kobbar
 

Jakobsfíflar, Erigeron, er ættkvísl um 150 tegunda í körfublómaætt, Asteraceae sem dreifast víða um heim, en mestur tegundafjöldi finnst í N-Ameríku. Þeir vaxa í fjalllendi eða graslendi og eru oft þurrkþolnir.

 

Erodium manescavii
Erodium - Hegranef
 

Hegranef, Erodium, er ættkvísl í blágresisætt, Geraniaceae. Þær tegundir sem eru ræktaðar hér eiga heimkynni í sunnanverðri Evrópu og eru því heldur viðkvæmar. Þær þurfa gljúpan jarðveg og sólríkan stað og eiga því best heima í steinhæðum.

 

Eryngium alpinum
Eryngium - Sveipþyrnar
 

Sveipþyrnar, Eryngium, er nokkuð stór ættkvísl af sveipjurtaætt, Apiaceae, með um 250 tegundum sem vaxa víða, flestar tegundir í S-Ameríku. Blómskipunin stendur mjög lengi og hentar vel til þurrkunar. Þeir henta í öll blómabeð og kjósa að standa óhreifðir þar sem þeir hafa djúpstæðar rætur. Nýjar plöntur vaxa upp af rótarbútum og auðvelt að fjölga þeim þannig.

 

Erythronium 'Pagoda'
Erythronium - Skógarliljur
 

Skógarliljur, Erythronium, er ættkvísl vorblómstrandi plantna af liljuætt, Liliaceae, náskyldar túlipönum, sem vaxa á engjum og í skógum í tempraða belti Evrasíu og N-Ameríku.

 

Euphorbia polychroma
Euphorbia - Mjólkurjurtir
 

Mjólkurjurtir, Euphorbia, er stór og fjölskrúðug ættkvísl í mjólkurjurtaætt, Euphorbiaceae, með hátt í 2000 tegundir. Þær eiga það allar sameiginlegt að innihalda eitraðan mjólkursafa og hafa sérstaka skipan lítilfjörlegra blóma umluktum stórum litskrúðugum háblöðum. Þekktasta tegund ættkvíslarinnar er líklegast jólastjarnan, Euphorbia pulcherrima.

 

F

Filipendula rubra
Filipendula - Mjaðurtir
 

Mjaðurtir, Flipendula, er ættkvísl 12 tegunda í rósaætt, Rosaceae, sem vaxa um tempraða beltið á norðurhveli. Þær hafa fjaðurskipt lauf og stóra sveipi örsmárra blóma. Þær vaxa í raklendi, oft við ár og vötn.

 

F
Marble Surface
bottom of page